Lífið

Styrkja vannærð börn í Suður-Súdan

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, er á leiðinni til Suður-Súdans en þar ríkir mikið neyðarástand.
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, er á leiðinni til Suður-Súdans en þar ríkir mikið neyðarástand. Fréttablaðið/Daníel
„Þetta er í fyrsta skipti sem við höldum svona flotta tónleika. Neyðarsöfnunin okkar fór akkúrat saman við hjólamót Alvogen sem fram fer í Hörpu, svo þetta smellpassaði allt saman,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, en hinn 3. júlí fara fram stórtónleikar í Silfurbergi til styrktar hjálparstarfi UNICEF í Suður-Súdan.

Hjaltalín, Páll Óskar, Snorri Helgason og Kaleo eru á meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum. Miðaverð er 4.500 krónur en miðasala hefst á föstudaginn.

Um 50.000 börn í Suður-Súdan eru nú þegar lífshættulega vannærð og yfir 740.000 börn undir fimm ára aldri eiga á hættu að verða vannæringu að bráð.

„Alvogen kostar alla tónleikana og því rennur allur ágóði beint til okkar, sem er algjörlega frábært,“ segir Stefán, sem sjálfur er á leiðinni til Suður-Súdan að fylgja verkefninu eftir. „Það er mikið neyðarástand sem ríkir á þessu svæði. Mörg börn standa frammi fyrir vannæringu og eru á flótta. Það verður átakanlegt en spennandi að fylgja þessu eftir alla leið.“

Snorri Helgason hvetur fólk til þess að mæta á tónleikana. „Það er auðvelt að gleyma því hér í bómullarhnoðra norðursins hvers konar neyð ríkir annars staðar í heiminum og nú er komin upp bókstaflega grafalvarleg staða í Suður-Súdan sem við verðum að bregðast við. Ég hlakka til að fá að leggja mitt af mörkum í þessari baráttu og vona að sjá sem flesta í Hörpunni 3. júlí. Réttum Súdönum almennilega hjálparhönd.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.