Skoðun

Ógagnleg ákæra

Ólafur Stephensen skrifar
Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur hjúkrunarfræðingi á Landspítalanum, sem er grunaður um að hafa gert mistök sem ollu dauða sjúklings. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenzkur heilbrigðisstarfsmaður er ákærður í slíku máli og ákæran felur því í sér stefnubreytingu frá því sem verið hefur.

Málið hefur verið til umfjöllunar eftir að lögreglurannsókn hófst á andláti sjúklingsins. Sú skoðun hefur áður komið fram af hálfu forsvarsmanna Landspítalans, og raunar líka sjúklinga og aðstandenda þeirra sem hafa skaðazt í læknamistökum, að það myndi hafa afar neikvæð áhrif, yrði ákæra gefin út, að ekki sé talað um ef dómur fellur í málinu og hjúkrunarfræðingurinn verður dæmdur til refsingar.

Rökin fyrir þeirri afstöðu eru meðal annars þau að undanfarin misseri hefur verið gert stórátak í að bæta öryggismenninguna á Landspítalanum, en í því felst að starfsfólk er hvatt til að tilkynna um hvers kyns mistök, stór og smá, í þeim tilgangi að hægt sé að læra af þeim og leitast við að hindra að þau endurtaki sig. Eigi fólk á hættu að það sjálft eða vinnufélagarnir þurfi að sæta refsingu, jafnvel fangelsi, ef sagt er frá mistökum, hefur það ekki mjög hvetjandi áhrif á öryggismenninguna.

Í ákæru ríkissaksóknara kemur fram að mistök hjúkrunarfræðingsins sem um ræðir voru gerð á kvöldvakt, sem unnin var í beinu framhaldi af dagvakt. Við slíkar aðstæður eykst hættan á mistökum. Launakjör, aðstaða og vinnuálag íslenzks heilbrigðisstarfsfólks eru í nógu miklu ólagi þótt ekki bætist við hættan á að dómskerfið refsi fólki fyrir mistök.

Það kemur því ekkert á óvart að allir viðmælendur Fréttablaðsins í gær lýstu yfir óánægju með að ákæra til refsingar hefði verið gefin út í málinu. Það á við um ekkju sjúklingsins sem lézt, formann Viljaspors, félags sem aðstoðar sjúklinga og aðstandendur þeirra sem hafa lent í óhöppum á heilbrigðisstofnunum, forsvarsmenn Landspítalans og formann Félags íslenzkra hjúkrunarfræðinga. Allir eru á því að frekar eigi að reyna að læra af mistökunum en að refsa fyrir þau.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur ekki fengizt til að rökstyðja það í fjölmiðlum hvers vegna ákæra var gefin út í þessu máli. Hugsanlega metur saksóknaraembættið það svo að gildandi lög gefi einfaldlega ekki tilefni til annars. Eftir er að sjá hvernig fer þegar dæmt verður í málinu, en útgáfa ákærunnar hlýtur að gefa löggjafanum tilefni til að endurskoða lagarammann að því er varðar mistök í heilbrigðisþjónustunni.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir í Fréttablaðinu í gær að tilefni sé til að taka upp umræðu um þetta mál. Geir Gunnlaugsson landlæknir nefnir að skoða megi norska kerfið, þar sem atvik í heilbrigðisþjónustu séu ekki tilkynnt til lögreglu nema grunur um glæpsamlegt athæfi liggi fyrir.

Að sjálfsögðu ber heilbrigðisstarfsfólk sína ábyrgð. Að sjálfsögðu þurfa sjúklingar og aðstandendur að geta leitað réttar síns og fengið bætur ef mistök eru gerð í heilbrigðisþjónustunni. En refsileiðin er augljóslega röng leið til þess og sú sem dregur úr líkum á að mistök séu tilkynnt og leitazt við að læra af þeim.




Skoðun

Sjá meira


×