Skoðun

Hænan í búrinu

Guðný Nielsen skrifar
Á Íslandi eru tugþúsundir varphæna hafðar í vírnetsbúrum, fjórar saman, hver með gólfflöt á við eina A4 blaðsíðu. Mögulega er skjárinn sem þú ert að lesa þessi orð af stærri en sá flötur. Hænan fer aldrei út úr búrinu. Hún fer aldrei út úr gluggalausri, afgirtri verksmiðjunni. Sú hæna sem aftast er í goggunarröðinni hefur enga undankomuleið frá sársaukafullu fjaðraplokki hinna hænanna í búrinu.

Líkt og í öðrum vel hönnuðum verksmiðjum er búraeiningunum staflað saman á hagkvæman hátt í langar raðir, á nokkrum hæðum. Skemman afgirt og utanaðkomandi er meinaður aðgangur. Fóðrið kemur inn á færibandi. Eggin fara út á færibandi. Birtustigi er stýrt þannig að hænan upplifir sólarhringinn mun styttri en hann raunverulega er. Tilgangurinn er að rugla hana í ríminu svo hún verpi sem flestum eggjum á sem skemmstum tíma.

Þessi framleiðsla krefst ekki mikilla starfskrafta. Hámarkshagræðingu hefur verið náð fram með útreikningum sem sýna nákvæmlega hvernig lágmarka má tilkostnað (rými, rafmagn, hiti, fóður o.s.frv.) án þess að það komi niður á framleiðni (hænanna). Fyrirhöfn eiganda verksmiðjunnar er takmörkuð og hann þarf bara að passa sig að halda verðinu nógu lágu til þess að tryggja sér viðskipti okkar. Og honum tekst það. Meirihluti seldra eggja á Íslandi eru þessi egg.

Lágmarksvelferðarstig

Hvers vegna fær eigandi verksmiðjunnar að komast upp með þessa lágmarksfyrirhöfn? Hvers vegna samþykkjum við neytendur þetta algera lágmarksvelferðarstig? Hvers vegna kaupum við þessi egg?

Langflestar verslanir eru farnar að selja egg hæna sem ekki eru hafðar í búrum heldur ganga um í skúrum. Það er himinn og haf á milli þeirra velferðarstiga sem „búrhænur“ og „skúrhænur“ búa við. Nokkrar verslanir (t.d. Fjarðarkaup og Frú Lauga) selja jafnframt egg hæna sem eiga þess kost að vappa um undir berum himni (landnámshænuegg).

Í nýjum lögum um velferð dýra (nr. 55/2013) segir orðrétt: „Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“ Unnið er nú að reglugerð um aðbúnað varphæna, framangreindum lögum til nánari tæknilegrar útfærslu. Framleiðsla og sala íslenskra eggja án notkunar búra undanfarin ár sýna, svo ekki verður um villst, að vel er unnt að framleiða egg á Íslandi án þess að halda hænur í búrum. Velbú skorar því á alla þá sem að reglugerðinni koma að tryggja að hún kveði á um að notkun búra við eggjaframleiðslu verði óheimil og eigendum verksmiðjanna sett tímamörk á að gera nauðsynlegar breytingar á aðbúnaði.

Eggjarækt hefur verið hluti af íslenskum landbúnaði í aldaraðir. Verksmiðjuvæðing eggjaframleiðslu kom ekki til fyrr en á síðari hluta 20. aldar. Undanfarin ár hafa framleiðendur víðs vegar um heim markvisst unnið að því að vinda ofan af þessari slæmu þróun og hafa margar þekktar erlendar verslanakeðjur stigið skrefið til fulls og hætt sölu búreggja. Engin íslensk verslanakeðja hefur enn stigið það skref.

Neytendur, munum að við kjósum með veskinu.




Skoðun

Sjá meira


×