Skoðun

Kjósendur velja næsta leiðtoga ESB

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Nú á dögunum fóru fram í fyrsta sinn kappræður þeirra frambjóðenda sem bjóða sig fram til forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Kappræðurnar voru líflegar, þær sýndu fram á að frambjóðendurnir og flokkarnir hafa mismunandi sýn á það hvert Evrópa skal halda, enda er Evrópa síbreytilegt samfélag sem sveiflast eftir pólitískum vindum. Ekki ósvipað Íslandi.

Frambjóðendurnir eru skemmtilegir og fjölbreyttir, eitthvað ætti að vera fyrir alla sem ganga að kjörborðinu núna í maí. Þar má nefna hægrimanninn Jean Claude Juncker, jafnaðarmanninn Martin Sculz, hinn frjálslynda Guy Verhofstadt, græningjana Ska Keller og José Bové og að lokum sósíalistann Alexis Tsipras.

Þessar kappræður fóru þó fram hjá Íslendingum og lítill sem enginn áhugi var hjá fjölmiðlum til að fjalla um þessa sögulegu stund. Þetta er sögulegt vegna þess að í fyrsta skiptið geta kjósendur í Evrópu haft áhrif á það hver mun leiða Evrópusambandið í gegn um lýðræðislega kosningu. Hingað til hefur framkvæmdastjórnin verið skipuð með samningum á bak við luktar dyr en nú verður breyting á. Evrópusambandið er þarna að taka mikilvægt skref í að verða lýðræðislegri rödd borgara sinna.

Á Íslandi ríkir hjá mörgum sá misskilningur að Evrópusambandið sé fyrirfram ákveðin pólitísk stærð. Að innganga í það feli í sér að samþykkja ákveðna pólitíska stefnu sem ekki breytist. Oft heyrir maður frá vinstri mönnum að Evrópusambandið sé of hægri sinnað og jafnan frá hægri mönnum að það sé of vinstri sinnað. Í dag er sambandinu aðallega stjórnað af hægriflokkum og stefnan því tekið mið af hugðarefnum hægrimanna. Þetta eru sömu hægrimenn og Sjálfstæðisflokkurinn er í flokkasamstarfi með.

Eðlilegir sviptivindar

En sannleikurinn er sá að Evrópusambandið tekur stakkaskiptum reglulega, ekki bara vegna krísunnar, heldur enn frekar vegna pólitískra áherslna leiðtoga þess. Það er merki um heilbrigða pólitíska menningu líkt og á Íslandi. Hér skiptast einnig á pólitískir sviptivindar sem öllum þykir eðlilegt.

Gleymum því ekki að Evrópusambandið er í stöðugri þróun líkt og Ísland, og jákvæðu tíðindin eru að Evrópusambandið er sífellt að verða lýðræðislegra. Þó svo að Ísland sé ekki fullur þátttakandi í Evrópusamstarfinu ber okkur skylda til að fylgjast með og taka þátt í rökræðunum um framtíð Evrópu. Enda mun þróunin þar hafa áhrif á okkar afkomu sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Kannski fáum við síðan einn daginn að hafa bein áhrif með okkar eigin frambjóðendum og kjósendum.

Næstu kappræður verða 15. maí og þær verða aðgengilegar á netinu. Ég skora á fjölmiðla og alla áhugamenn um stjórnmál að fylgjast með umræðunni og taka þátt í henni fyrir Evrópuþingskosningarnar 25. maí.




Skoðun

Sjá meira


×