Skoðun

Fyrirsjáanlegt ástand

Steinar Berg Ísleifsson skrifar
Bundið slitlag frá Borgarfirði um Lundareykjardal og Uxahryggi til Þingvalla er einföld leið til að dreifa vaxandi fjölda ferðamanna. Þessi aðgerð er á núverandi samgönguáætlun en teygð yfir mörg ár; frá 2015 til 2022.

Bútasaumur. Reyndar var byrjað með bútasaumsaðferðinni árið 2004 og þá lagður 20 km kafli af upphækkuðum góðum vegi á Uxahryggjum. Kostnaðurinn nam 85% af kostnaðaráætlun fullbúins vegs með bundnu slitlagi. Síðan ekki söguna meir.

Af hverju var ekki farið alla leið og lokið við varanlegt bundið slitlag? Góð spurning, segja þeir sem tóku þessa ákvörðun. Þessi vegur hefur síðan þurft að sæta vanrækslu í viðhaldi. En samt: undirstaðan bíður tilbúin fyrir bundið slitlag og er því hagkvæm framkvæmd. Það er kjörið tækifæri núna þegar samgönguáætlun er í endurskoðun að gefa þessari veglagningu forgang þannig að henni verði lokið 2017.

Helstu rök fyrir því að leggja bundið slitlag á þessa 60 km leið sem tengir saman Vesturland og Suðurland eru:

Dreifing umferðar. Sérstaklega á álagstímum yfir sumarmánuðina; aukið umferðaröryggi.

Tengivegur frá Vesturlandi til Þingvalla stuðlar að dreifingu ferðamanna. Á Suðurlandi eru margir ferðamannastaðir ofnýttir en vannýttir á Vesturlandi.

Opnar aðgengi fyrir smábíla, rútur, húsbíla og bíla með hjól- eða fellihýsi í togi, sem alla jafna halda sig helst á bundnu slitlagi.

Auknir valmöguleikar ferðaskipuleggjenda til að setja saman nýja ferðapakka í lengri og styttri hringferðir með viðkomu í báðum landshlutum.

Vegbót á þessari leið kemur íbúum og fjölda fyrirtækja í báðum landshlutum til góða.

Lagning bundins slitlags á þessari leið er hagkvæm vegna þess að veglagningin fylgir að langmestu leyti núverandi vegstæði.

Umhverfismat vegna tengingar við veginn í þjóðgarði Þingvalla er fyrirliggjandi.

Rökin voru gild fyrir fimm árum, hvað þá núna þegar ferðamönnum hefur fjölgað um helming síðan þá. Úr fimm hundruð þúsund í milljón og áframhaldandi aukning á næstu árum. Er ekki skynsamlegt að bregðast við fyrirsjáanlegu ástandi?

Ástæðurnar eru fleiri. Gjaldtöku í Hvalfjarðargöng skal hætt árið 2018. Forráðamenn Spalar hafa viðrað hugmynd um gerð nýrra ganga og þar með áframhaldandi gjaldtöku. Gjaldið er í raun íþyngjandi skattur sem lofað var að yrði tímabundinn. Full ástæða er til að staðið verði við gerðan samning og gjaldtöku hætt þegar samningstímanum lýkur.

Það blasir við að bundið slitlag milli Þingvalla og Borgarfjarðar er valmöguleiki sem myndi koma sér vel á álagstímanum í júlí sem forsvarsmenn Spalar hafa nefnt til rökstuðnings máli sínu sem helstu ástæðu tvöföldunar ganganna. Það er full ástæða til þess að hraða lagningu bundins slitlags um Uxahryggi og ljúka verkinu áður en ríkið fær Hvalfjarðargöng til umráða. Almenna skynsemi, hvar ertu?




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×