Skoðun

Bakkabræður í ríkisstjórn

Þórir Stephensen skrifar
Íslenskur sagnaarfur á ekki margar þekktari eða skemmtilegri sögupersónur en þá Gísla, Eirík og Helga, bræðurna á Bakka í Svarfaðardal. Þeir voru svo skemmtilega vitgrannir að þeir hafa orðið aðhlátursefni margra kynslóða.

Eitt fáránlegasta uppátæki þeirra var er þeir reistu sér baðstofu og höfðu hana gluggalausa til þess að hún yrði hlýrri á vetrum. En þá vantaði birtuna í bæinn. Til að bæta úr því, ákváðu þeir að bera myrkrið út og sólskinið inn í trogum. Þrátt fyrir dugnað þeirra við trogaburðinn hafði ekkert birt í bænum þegar leið á daginn. Þeir sáu ekki handa sinna skil frekar en áður.

Ég get ekki að því gert að mér finnst sumt í gerðum núverandi ríkisstjórnar minna mig á baðstofubygginguna á Bakka. Einkum á það við um utanríkis- og fjármál. Meðan meirihluti þjóðarinnar vill láta á það reyna hvort við náum hugsanlega viðunandi samningum við Evrópusambandið um samstiga framfarir, þá hamast Bakkabræður ríkisstjórnarinnar, þeir Sigmundur Davíð, Bjarni og Gunnar Bragi, við að reyna að loka okkur inni í gluggalausu húsi. Við megum ekki sjá hvað aðrir gera best. Hugarfar frelsis og framfara á helst ekki að finna sér neinar glufur inn í samfélag okkar.

Okkur á að nægja það sem þeir eru að bera okkur í sínum forneskjulegu trogum og reynist árangurslítið, af því að þeir virðast ekki, frekar en Bakkabræðurnir fyrir norðan, hafa þá andlegu hæfileika sem þarf til að leysa vandamálin þannig að samfélag okkar njóti birtu þeirra framfara sem öðrum hafa reynst vel.

Flestir sæmilega skynsamir menn sjá hvert svona innilokunarstefna leiðir okkur. Því þarf ekki að orðlengja þetta. En þótt við vitum að Evrópusambandsaðild leysi ekki öll okkar vandamál, þá er sterk von við hana bundin, einkum í utanríkis- og fjármálum, og því lýk ég þessari grein með hvatningarorðum sr. Matthíasar. Takið þau til ykkar hver og einn, Sigmundur Davíð, Bjarni og Gunnar Bragi:

Opnaðu bæinn, inn með sól!

Öllu gefur hún líf og skjól,

Vekur blómin og gyllir grein,

gerir hvern dropa eðalstein.

Opnaðu bæinn.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×