Skoðun

Ógnvekjandi eigin kostnaður vegna göngudeildarþjónustu

Ólafur Ólafsson og Lýður Árnason og Gunnar Alexander Ólafsson skrifa
Margar kannanir hafa leitt í ljós að gæði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi eru eins og best gerist í nágrannalöndum. Grundvallaratriði er að allir hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Því miður virðist svo ekki vera hér á landi. Mörg dæmi hafa borist, meðal annars í fjölmiðlum, um að kostnaður við heilbrigðisþjónustu hafi snaraukist. Vitað er um sjúklinga sem greitt hafa að minnsta kosti milljón krónur á ári fyrir heilbrigðisþjónustu.

Annars staðar á Norðurlöndum, þar sem þjónustan er byggð upp á svipuðu róli og hér, hafa verið settar reglur um hámarkskostnað í heilbrigðisþjónustu. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð er kostnaður yfir 12 mánaða tímabil um 1.100 SEK (18.800 ISK) fyrir heilbrigðisþjónustu og 2.200 SEK (37.500 ISK) fyrir lyf. Á Íslandi er ekkert hámarksþak fyrir kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, en hægt er að fá afsláttarkort þegar kostnaður fer yfir 32.300 á almanaksári.

Flóknar gjaldskrár

Hins vegar er hámarksþak á kostnað vegna lyfja á Íslandi og liggur það við 69.000 krónur. Þegar fólk hefur náð þessari upphæð vegna lyfja á ári, greiðir það ekki meir á 12 mánaða tímabili. Öryrkjar og aldraðir greiða lægri upphæðir. Til viðbótar þessu verður að geta þess að gjaldskrár í heilbrigðisþjónustunni eru flóknar og ógegnsæjar, til dæmis í göngudeildarþjónustu.

Í skýrslu sem gerð var fyrir Krabbameinsfélagið haustið 2013 kom fram að heildarkostnaður heilbrigðiskerfisins á Íslandi árið 2012 var um 150 milljarðar króna. Þar af borgaði hið opinbera 120 milljarða og einstaklingar borguðu um 30 milljarða fyrir heilbrigðisþjónustu (lyf þ.m.t.) árið 2012. Þetta þýðir á mannamáli að ef þeim kostnaði yrði deilt niður á hvert mannsbarn á Íslandi, þyrfti hver og einn að borga 95.000 krónur á ári úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf.

Að ofan var nefnt dæmi um að sjúklingar hafi þurft að greiða allt að milljón á ári fyrir göngudeildarþjónustu. Þessi kostnaður er að okkar mati óásættanlegur, ekki síst í ljósi þess að um er að ræða langveikt fólk.




Skoðun

Sjá meira


×