Skoðun

Galdramál

Haukur Sigurðsson skrifar
Einkenni galdramála hér á landi á 17. öld: Karlmaður er grunaður um að hafa notað ritaða stafi sem hann magnar svo sterkum eiginleikum að þeir geta valdið tjóni, sjúkdómum, dauða manns sem þeir eru sendir til. Hugsanlegur galdramaður var aldrei spurður hvernig hann magnaði stafina þessu afli né hvaðan honum kom kunnáttan. Hins vegar er fullyrt að hann sé á samningi við djöfulinn. Hann er aldrei beðinn um að leggja samninginn fram undirritaðan og staðfestan. Ofsækjendur vita hvernig samningurinn er af því að hann er gerður við þann í neðra.

Andstæðingar samnings við Evrópusambandið eru nú komnir í þetta fýsilega hlutverk þeirra sem engan samning vildu sjá á 17. öld við höfðingjann í neðra. Höfðinginn í neðra breytir nefnilega aldrei samningi þótt hann hafi núna heimilisfesti í Brüssel, segja þeir vísu núna. Aldrei var spurt á 17. öld hvort eða hvernig þeir semdu við hinn öfluga myrkrahöfðingja.

Eins er nú á okkar öld, þá vilja sumir einskis spyrja því að þeir vita hvert svarið verður. Ekki þekktist á galdraöld að spyrja þjóðina hvað henni fyndist um ákvarðanir stjórnvalda í mikilsverðum málum. Nú er reynt að endurlífga þann gamla tíma með því að hlusta ekki á beiðnir líkt og ráðamenn hafi aldrei heyrt þær. Höfðingjanum í neðra finnst það lítt þroskuð stjórnviska að lofa mönnum að greiða atkvæði en taka svo þennan rétt af þeim strax eftir kosningar. Stefnan eigi að vera: Lofa engum rétti til að kjósa eftir að málið hefur verið afgreitt. Það sé eina leiðin til að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Þeir í Brüssel vilji hafa púka sína hér til að vinna fyrir sig eins og sá gamli neðrahöfðingi vildi láta þá vinna fyrir sig á myrkri öld. Linni galdraöld og upp renni skeið upplýsingar, munu hinir steinrunnu standa eftir sem saltstólpar, einskis nýtir draugar fortíðar. Skyldi það ekki vera að núverandi stjórnvöld ríki á vitlausri öld?




Skoðun

Sjá meira


×