Skoðun

Skólar í Kópavogi í fremstu röð

Ármann Kr. Ólafsson og bæjarstjóri Kópavogs skrifa
Upplýsingatækni í skólum hefur tekið gríðarlegum breytingum undanfarin ár og nú er svo komið að hún er ein af undirstöðum undir árangursríkt starf á öllum skólastigum. Í Kópavogi gerum við okkur grein fyrir þessu og höfum brugðist við með ýmsum hætti.

Í árslok 2012 og í ársbyrjun 2013 var samþykkt stefna Kópavogsbæjar í upplýsingatækni í leik- og grunnskólum og eftir þeirri stefnu hefur verið unnið síðan. Fjölmargir komu að þessari stefnumótun og er tilgangurinn meðal annars að koma til móts við kröfur nútímans.

Í skóla án aðgreiningar er fjölbreytileiki lykilinn að því að allir nemendur nái árangri og geti nýtt sér kennsluna. Nútímatækni stuðlar að fjölbreyttum vinnubrögðum og getur veitt nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og tækifæri til að miðla þeirri þekkingu á skapandi og gagnrýninn hátt.

Í samræmi við stefnu bæjarins er verið að byggja upp tækjabúnað í skólum og þá hafa verið unnin þróunarverkefni í upplýsingatækni í nokkrum skólum í bænum og lagningu þráðlauss nets í grunnskólunum lýkur á árinu.

Svo vikið sé að leikskólum Kópavogs þá fengu þeir allir spjaldtölvu á síðasta ári. Þá hafa allar deildir í nítján leikskólum Kópavogs getað valið á milli spjaldtölvu, fartölvu eða borðtölvu til að nota í sínu starfi. Tækin verða afhent í sumar. Margir leikskólanna hafa valið sér spjaldtölvu og til að koma til móts við áhugann á þeim valkosti hefur bærinn staðið fyrir námskeiðum sem stuðla að færni leikskólakennara til þess að nota spjaldtölvur í leikskólakennslu. Fleiri námskeið eru á döfinni í haust.

Að öllu samanlögðu er óhætt að fullyrða að Kópavogur hafi tekið forystu í málum upplýsingatækni í leik- og grunnskólum. Markmiðið er að bæta árangur nemenda og búa þá sem best undir framtíðina, hún er þeirra.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×