Körfubolti

Sverrir Þór skilar liðum sínum alltaf í lokaúrslitin um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór er á sínu sjötta tímabili sem þjálfari og í sjötta sinn með lið í lokaúrslitum.
Sverrir Þór er á sínu sjötta tímabili sem þjálfari og í sjötta sinn með lið í lokaúrslitum. Fréttablaðið/Daníel

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, heldur áfram að bæta við magnaða hefð sína að fara alltaf með sín lið í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn. Grindavík vann sannfærandi og glæsilegan sigur á Njarðvík í oddaleik undanúrslita Dominos-deildar karla og lið Sverris hafa því spilað til úrslita undanfarin fjögur ár og í öll sex skiptin sem hann hefur þjálfað meistaraflokkslið.

Sverrir Þór gerði Grindavík að Íslandsmeisturum í fyrra og hafði veturinn á undan unnið tvöfalt með kvennalið Njarðvíkur. Njarðvíkurkonur fóru líka í lokaúrslitin árið á undan og Sverrir Þór fór einnig með kvennalið Keflavík í úrslitaeinvígið bæði tímabilin sem hann þjálfaði liðið frá 2004 til 2006.

Grindavíkurliðið hefur ennfremur komist í bikarúrslitaleikinn bæði árin hans í Grindavík og vann bikarinn fyrr í vetur. Sverrir Þór er því búinn að vera með lið sín í bæði úrslitum Íslandsmótsins og úrslitum bikarkeppninnar undanfarin þrjú tímabil.

Sverrir Þór var einnig í lokaúrslitunum sem leikmaður Keflavíkur vorið 2010 og þetta er því fimmta tímabilið í röð þar sem hann tekur þátt í lokaúrslitum í annaðhvort karla- eða kvennaflokki. Í raun hefur Sverrir Þór aðeins misst af því að vera í lokaúrslitum þrisvar sinnum á síðustu þrettán tímabilum en það var árin 2007 til 2009.

Frá og með tímabilinu 2001-2002 hefur Sverrir Þór tekið þátt í ellefu lokaúrslitum sem annaðhvort leikmaður (5 sinnum) eða þjálfari (6 sinnum).Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.