Skoðun

Fjölskylduborgin Reykjavík

Benóný Harðarson skrifar
Þó kannanir sýni að stór hluti ungs fólks vilji búa í Reykjavík og miðsvæðis er staðreyndin því miður sú að margt ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu kýs að búa í nágrannasveitarfélögunum. Ástæðan er einföld: Húsnæðiskostnaður er of hár í Reykjavík, sérstaklega vegna þess hversu dýrt er að stofna og reka fjölskyldu.

Þessu verður að breyta. Reykjavík þarf að verða alvöru fjölskylduborg þar sem fólk getur ráðið hvort það býr í eigin húsnæði eða öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Við þurfum aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum sem henta ungum fjölskyldum og háskólanemum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð gerir sér grein fyrir þessu. Að okkar mati er algert forgangsatriði að íbúðir í þessum stærðarflokkum verði byggðar. En við þurfum að tryggja að verktakar og leigufélög peningamanna og braskara misnoti ekki húsnæðisskortinn til að græða á vanda ungra fjölskyldna, við þurfum að efla húsnæðissamvinnufélög og auðvelda Félagsstofnun stúdenta að leysa húsnæðisvanda háskólanema.

Þurfa fleira en húsnæði

Ef við viljum bæta kjör ungra fjölskyldna þurfum við hins vegar að horfa til fleiri þátta en húsnæðiskostnaðar. Kostnaður foreldra vegna leikskólagjalda, frístundastarfs, skólamáltíða og annarrar grunnþjónustu við börn er t.d. gríðarlega mikill. Gjaldheimta borgarinnar vegna eðlilegrar grunnþjónustu við börn er þungur útgjaldaliður hjá mörgum ungum fjölskyldum. Of þungur, því allt of margar efnalitlar fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að borga fyrir skólamáltíðir og frístundastarf, og fyrir alla hina eru þessi gjöld mjög stór útgjaldaliður.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum því lagt mikla áherslu á að öll grunnþjónusta við börn verði í boði fyrir alla, óháð fjárhag eða stöðu.

Gjaldfrjálsa grunnþjónustu

Að bjóða upp á gjaldfrjálsa leikskóla, skólamat og tómstundastarf er ótrúlega mikilvægt fyrir samfélagið. Hærri tómstundastyrkur dugar ekki til. Við þurfum alvöru aðgerðir til að tryggja jöfnuð.

Slíkar aðgerðir bæta ótvírætt kjör allra fjölskyldna. Þær auka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna og losa efnaminnstu fjölskyldurnar við álagið sem fylgir því að eiga ekki fyrir reikningum vegna skólamatar eða frístundaheimilis.

Kæru Reykvíkingar, fáum ungar fjölskyldur til þess að flytja til Reykjavíkur. Gætum þess að aðstæður séu þannig að allir fái jöfn tækifæri til að blómstra. Setjum því X við V í vor.




Skoðun

Sjá meira


×