Skoðun

Friður, jöfnuður og auðlindir

Helgi Hjörvar og Karin Åström skrifar
Akureyri verður vettvangur samráðs og pólitískrar umræðu 87 þingmanna þegar Norðurlandaráð kemur þar saman til vorþings á morgun. Á dagskrá þingsins eru bæði átakamál þar sem mismunandi áherslur stjórnmálaflokkanna koma skýrt fram en einnig samstöðumál, þar sem stjórnmálamenn allra flokka vinna saman að mikilvægum hagsmunamálum. Jafnaðarmenn munu taka virkan þátt í þinginu enda er þingflokkur jafnaðarmanna stærstur í Norðurlandaráði með 26 þingmenn frá öllum Norðurlöndunum.

Afdráttarlaus afstaða Norðurlandaráðs í deilunni um Krímskagann er gott dæmi um það hvernig Norðurlöndin geta á vettvangi ráðsins tekið sameiginlega afstöðu í alþjóðlegum álitamálum. Á þinginu er áríðandi að Norðurlandaráð árétti skýra afstöðu sína í deilunni og leggi með þeim hætti mikilvægt lóð sitt á vogarskál friðar í Evrópu.

Á þinginu munu jafnaðarmenn leggja ríka áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, bæði með tilliti til umgengni okkar við lífríkið en ekki síður samfélagsins sem auðlindirnar fóstrar. Við verðum að tryggja að auðlindirnar nýtist komandi kynslóðum ekki síður en okkur sem nú lifum og við verðum að tryggja að arði af sameiginlegum auðlindum verði réttlátlega skipt og hann nýtist til uppbyggingar og samfélagslegra verkefna. Um þessi grundvallarsjónarmið standa norrænir jafnaðarmenn saman hvort sem rætt er um fisk, námugröft, skógarhögg, orku eða aðrar auðlindir Norðurlandanna.

Á Akureyri munu jafnaðarmenn einnig halda áfram sameiginlegri baráttu sinni fyrir uppbyggingu og þróun norræna velferðarkerfisins en í stjórnartíð hægrimanna hefur víða verið að því sótt á undanförnum árum. Ekki síst á þetta við um réttindi og stöðu launþega gagnvart félagslegum undirboðum og langtímaatvinnuleysi ungs fólks. Afleiðingin er aukin lagskipting vinnumarkaðarins og aukinn ójöfnuður. Þessari þróun vilja jafnaðarmenn snúa við, m.a. með sameiginlegum aðgerðum Norðurlandanna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði, aðgerðum gegn atvinnuleysi ungs fólks og með því að styrkja stöðu stéttarfélaga.

Á þingi Norðurlandaráðs leggja jafnaðarmenn því áherslu á frið, jöfnuð, réttlæti og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda – hér eftir sem hingað til.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.