Skoðun

Hugmyndalisti Orkustofnunar

Sif Konráðsdóttir skrifar
Orkustofnun lagði fram umdeildan lista með 91 virkjanahugmynd fyrir skemmstu, þar af 50 frá eigin brjósti, eins og rætt var um í grein minni 2. apríl. Í ljós hefur komið að af þeirri 41 hugmynd sem frá orkufyrirtækjum komu eru fjórar þegar í verndarflokki. Þar á Landsvirkjun tvær hugmyndir, Norðlingaölduveitu og Tungnaárlón, Sunnlensk orka eina á Hengilssvæðinu og Orkusalan á eina, miðlun í Hólmsárlóni austan Torfajökuls. Og – af þeim 50 hugmyndum sem komu frá Orkustofnun án þess að neinn bæði um það eru einar 15 þegar í verndarflokki. Þeirra á meðal eru fjögur svæði í Kerlingarfjöllum (á náttúruminjaskrá) og Jökulfall og Hvítá við Bláfell á Kili.

Beðið um rök

Orkustofnun getur ekki falið verkefnisstjórn um vernd og nýtingu náttúrusvæða að meta neina af þessum 19 hugmyndum, þó verkefnisstjórnin taki vissulega við ábendingum orkufyrirtækja og Orkustofnunar eins og hvers annars. Lögin og lögskýringagögn eru skýr um það. Að þeirri niðurstöðu komst einnig umhverfis- og auðlindaráðuneyti í lögfræðiáliti.

Að auki ber Orkustofnun að rökstyðja sérstaklega gagnvart verkefnisstjórninni hví stofnunin telur sér rétt að neyta lagaheimildar til að óska mats á einum 35 hugmyndum til viðbótar, án þess að nokkurt orkufyrirtæki óski þess. Þeirra á meðal eru Hveravellir (friðlýstir), Seyðishólar í Grímsnesi og Sandfell við Haukadalsheiði og Brúará (á náttúruminjaskrá) í Biskupstungum. Auk þess hálfrar aldar gömul hugmynd um að dæla Hvítá í gegnum svæði á náttúruminjaskrá upp í lón sem yrði þar sem nú er Úlfsvatn upp á Vörðufelli í Biskupstungum. Hver ætli séu rökin fyrir að biðja um mat á þessu þegar engin er skyldan?

(Höfundur ólst upp á bökkum Hvítár í Biskupstungum)




Skoðun

Sjá meira


×