Skoðun

Súkkulaði…

Sólveig Hlín Kristinsdóttir og Þuríður Helga Kristjánsdóttir skrifar
Þessa dagana kaupa margar fjölskyldur súkkulaði í massavís í tilefni páskanna. Flestir velja að sjálfsögðu innlenda framleiðslu því okkur hefur verið kennt að það sé best. En því miður eru yfirgnæfandi líkur á því að neytendur séu þannig, með óbeinum hætti, að styðja við barnaþrælkun. Engin íslensk sælgætisgerð býður upp á vörur sem hafa hlotið vottun um sanngjarna viðskiptahætti.

Börnum stolið

Þrátt fyrir að barnaþrælkun sé bönnuð með lögum í þeim löndum sem framleiða kakó, þá viðgengst hún hjá fjölmörgum kakóframleiðendum. Börnum er ýmist stolið eða fjölskyldur ginntar til að láta börn sín af hendi með loforðum um menntun og launaða vinnu. Síðan eru börnin látin vinna við hættulegar aðstæður í ótal klukkustundir á dag, bera níðþungar byrðar, úða skordýraeitri án þess að klæðast hlífðarfatnaði og vinna með sveðjum sem þau stórslasa sig á. Börnin fá ekki að kynnast öðru en erfiðisvinnu og loforð um skólagöngu eru svikin.

Heimsmarkaðsverð á kakói hefur verið að hækka en það skilar sér því miður lítið til kakóbænda. Þeir fá sífellt minna hlutfall af endanlegu söluverði framleiðsluvörunnar en í dag er það ekki nema 1/16, árið 1980 var hlutfallið 1/6. Laun langflestra sjálfstæðra kakóbænda eru undir fátæktarmörkum. Þeir festast í fátæktargildrum og geta ekki borgað sér eða öðrum mannsæmandi laun. Framleiðslufyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum hirða hagnaðinn.

Það er mikill tvískinnungur að halda hátíð þar sem fjölskyldan kemur saman og gæðir sér á ljúffengum súkkulaðieggjum, vitandi það að hráefnið gæti verið framleitt við hrikalegar aðstæður. Við viljum hafa hreina samvisku og geta gætt okkur á góðu súkkulaði sem vottað er að er framleitt á sanngjarnan hátt. Íslenskar sælgætisgerðir bera ábyrgð með því að versla ekki við heildsölur sem hafa viðurkennda vottun. Þeim ætti að vera það metnaðarmál að bjóða upp á vörur sem framleiddar eru við aðstæður þar sem verkamenn njóta sanngirni og neytendur geta notið samviskulaust.




Skoðun

Sjá meira


×