Skoðun

Eru tilfinningar til trafala?

Hildur Þórðardóttir skrifar
Í menningu okkar eiga allir að vera glaðir, jákvæðir, skemmtilegir og hressir. Það þykir skömm að því að gráta á almannafæri og hvað þá að taka reiðiköst. Fólk á ekki að vera reitt og ef fólk hefur tilhneigingu til að reiðast ætti það að skella sér á reiðistjórnunarnámskeið hið snarasta. Helst eiga tilfinningar ekki að koma daglegu lífi við.

Þannig lærir heil þjóð að afneita tilfinningum sínum vegna þess að þær þykja ekki vænlegar til árangurs. Við lærum heilmargar leiðir til að bæla þær eins og áfengisdrykkju, eiturlyfjanotkun, reykingar, geðdeyfðarlyf og fata-, skó- eða græjukaup. Sjónvarpsgláp, tölvuleikir og kynlíf eru líka frábærar leiðir til að hunsa vanlíðan og vaxandi pirring.

Tilfinningar eru ekki eitthvað sem við veljum að upplifa, heldur viðbrögð við áföllum, uppákomum og lífinu eins og það kemur. Ef einhver stígur á fótinn á þér bregstu við með því að kippa fætinum undan, æpa, ýta burtu þeim sem steig ofan á þig eða fyllist ótta. Öll viðbrögðin eru réttmæt og fara eftir hversu oft hefur verið stigið á fótinn á þér áður.

Á sama hátt eru allar tilfinningar réttmætar. Hvort þú bregst við með skilningi, ótta, kvíða, depurð, höfnunartilfinningu, kærleika eða reiði fer eftir hversu margar óuppgerðar tilfinningar þú geymir. Hafir þú búið við ofbeldi þar sem þú varst sífellt hræddur eru líkur á að þú upplifir ótta í óvæntum aðstæðum. Hafir þú upplifað mikla höfnun er líklegt að þú lítir á allar uppákomur sem höfnun á þér.

Við flokkum oft tilfinningar í neikvæðar eða jákvæðar. Þessar jákvæðu eru álitnar í lagi en þessar neikvæðu skulu grafnar djúpt og alls ekki viðurkenndar. En þær neikvæðu eru alveg jafn eðlilegar og hinar jákvæðu og einmitt með því að viðurkenna þær hleypum við þeim út.

Ef manneskja upplifir reiði yfir því að einhver gerði á rétt hennar er miklu vænlegra að hún leyfi reiðinni að fá útrás með því að mótmæla. Hún þarf ekki að gera það með yfirgangi eða frekju.

Reiði er í raun uppsafnaður pirringur og við könnumst flest við að leyfa pirrandi ástandi að viðgangast því við viljum ekki vera með vesen. Þess vegna gröfum við pirringinn þar til ekki er pláss fyrir meira og við springum. Þá eigum við miklu erfiðara með að stjórna orðum okkar og hættir til að særa. Það er miklu heilbrigðara að segja eitthvað strax. En þegar öll áherslan er á að vera skemmtilegur og glaður er erfitt að vera sá leiðinlegi sem segir hvað honum finnst.

Með því að hleypa tilfinningunum út jafnóðum í stað þess að grafa þær inni í okkur náum við betri stjórn á þeim. Hreinsum líka út þær tilfinningar sem við höfum hlaðið hvað mest af til að hjálpa okkur að bregðast öðruvísi við.

Að hafa taumhald á tilfinningunum þýðir ekki að afneita þeim og þykjast vera alltaf glöð, heldur einmitt að viðurkenna þær og hleypa þeim út strax svo þær verði viðráðanlegri.








Skoðun

Sjá meira


×