Skoðun

Heilsuefling er sparnaður til framtíðar

Ólafur G. Skúlason skrifar
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að efla eigi heilsugæsluna og tryggja sess hennar sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þar segir einnig að efla eigi starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Þannig megi draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið til framtíðar.

Það skýtur því skökku við þegar í ljós kemur að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins á að draga saman um 100 milljónir króna á árinu 2014. Mikið hefur verið dregið úr fjárveitingu til heilsugæslu á landinu frá árinu 2009. Farin hefur verið sú leið að halda þjónustunni óbreyttri en í staðinn hefur álag á heilbrigðisstarfsfólk aukist og það látið vinna hraðar og meira til að sinna skjólstæðingum sínum.

Nú er svo komið að gengið hefur verið eins langt og hægt er í hagræðingu. Þessari sparnaðarkröfu sem nú er uppi verður mætt með skerðingu á þjónustu hjúkrunarfræðinga. Skerðingu einmitt á þeim sviðum sem ríkisstjórnin nefnir í stefnuyfirlýsingu sinni. Minnka á ung- og smábarnavernd, mæðraeftirlit og skólahjúkrun. Fækka á stöðugildum hjúkrunarfræðinga um 7,5 eða samtals 17,5 stöðugildi frá árinu 2008.

Skólahjúkrun er afar mikilvægur hluti heilsugæslu. Þar fer fram mikil fræðsla um forvarnir og heilsueflingu. Aðgangur er að börnum sem eru móttækileg fyrir nýjum hlutum og eru að tileinka sér lífshætti og prófa sig áfram í lífinu. Þarna er tækifæri til að sá fræjum í huga þeirra þess efnis að heilsan skiptir máli. Með því að hvetja þau til heilbrigðara lífernis, fræða þau um sjúkdóma, greina vandamálin áður en þau verða stórvægileg og veita þeim sálfélagslegan stuðning má spara í heilbrigðiskerfinu til langframa. Hjúkrunarfræðingar vinna þarna að eflingu heilbrigðis og hafa þannig áhrif á heilbrigði þjóðarinnar til framtíðar.

Við skulum ekki spara eyrinn og kasta krónunni. Við verðum að horfa fram á veginn og tryggja það að heilsuefling, eftirlit og forvarnir haldi sessi. Heilbrigði þjóðarinnar er í húfi.



Lesendur Vísis geta sent inn greinar á greinar@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.





Skoðun

Sjá meira


×