Skoðun

Skemmdarverk gagnvart þjóðinni

Guðjón Sigurbjartsson skrifar
Mikið virðist liggja við hjá meirihlutanum á Alþingi að þjóðin fái ekki að kjósa um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þetta er þeim mun fráleitara í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir kosningar búinn að lofa því bæði skriflega og munnlega af mörgum helstu frambjóðendum að þjóðin fengi að ráða framhaldinu varðandi umsóknina.

Það er ekki eins og að þetta loforð hafi verið gefið í einhverju tómarúmi, hugsunarleysi eða óvart. Það var gefið í ljósi þess að skoðanakannanir sýndu flokkinn kominn niður í 18% fylgi og á niðurleið. Fylgið tók að hækka eftir að þessi loforð voru gefin og geðþekka framkomu formannsins í sjónvarpi þar sem Bjarni virkaði einlægur og traustur. Sjálfstæðisflokkurinn náði svo 27,6% fylgi í kosningunum og myndaði stjórn með Framsóknarflokknum.

Hafi meirihlutinn á Alþingi haldið að auðvelt yrði að svíkja þetta kosningaloforð þá ætti honum að vera orðið það ljóst núna að fólkinu í landinu er ekki sama um framhald málsins og vill ekki láta hætta viðræðum. Það vill fá að sjá samninginn, „kíkja í pakkann“ eins og sagt er. Í ljósi þeirra hörmunga sem fólkið í landinu hefur upplifað við og eftir hrunið sem núverandi og þáverandi stjórnarflokkar eiga sinn þátt í að varð, því þeir stjórnuðu hér í mörg ár fyrir hrun, mætti ætla að ríkur vilji væri hjá þeim að leita allra leiða til að bæta lífskjör og fylkja fólkinu í landinu á bak við sig og skapa sátt og vinnufrið í þjóðfélaginu.

En, nei – ekki aldeilis. Í stað þess að taka tillit til vilja þjóðarinnar sem kannanir hafa sýnt í langan tíma að vilji sjá hvað kemur út úr aðildarsamningunum, lætur þessi stjórn sig hafa það að hafa vilja um 75% þjóðarinnar að engu og ætlar að knýja fram sjónarmið 30% þjóðarinnar í þessu örlagaríka máli. Þetta er illa gert og ljótt gagnvart meirihluta þjóðarinna. Við sem viljum að samningavinnan haldi áfram erum sjálfsagt flest tilbúin til að sætta okkur við að hún gangi hægt í ljósi þess að þessi stjórn telur hagsmunum þjóðarinnar betur borgið utan ESB.

En við viljum fá að kjósa um hvort samningum verði fram haldið og ef það verður samþykkt þá á stjórnin að gera svo vel og virða þann vilja eða fara frá. Það má ganga hægt en undir lok kjörtímabilsins geta samningarnir verið komnir á lokastig. Síðan eftir næstu kosningar má ljúka samningum endanlega. Sú stjórn sem þá verður kosin veit að hverju hún gengur í þessum efnum og getur lokið samningunum og borið þá undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samningarnir við Evrópusambandið snúast um lífskjör okkar, framtíðargjaldmiðil og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Þetta eru stór mál fyrir þjóð sem hefur gengið í gegnum það sem við höfum þurft að ganga í gegnum síðustu ár frá hruni. Það minnsta sem þessi lánlausa ríkisstjórn getur gert fyrir fólkið í landinu er að leyfa okkur að eiga þá von að einhvern tímann á næstu árum fáum við loksins, loksins að sjá hvað felst í fullri aðild að Evrópusambandinu. Þetta álitamál hefur reynst okkur þungt að ýmsu leyti.

Málið er það stórt að það klýfur fjölskyldur, vinahópa og stjórnmálaflokka og kemur hart niður á lífskjörum okkar. En þjóðin er nánast sammála um hvernig á að útkljá málið. Við viljum fá að kjósa um það hvort aðildarviðræðunum verður fram haldið. Þetta er mál sem er stærra en svo að Alþingi geti tekið um það ákvörðun fyrir okkur. Sýnum vilja okkar á thjod.is og hvetjum aðra til þess sama.




Skoðun

Sjá meira


×