Skoðun

Menningarstjórnun er styrkur

Njörður Sigurjónsson skrifar
Í ritstjórnarpistli í Fréttablaðinu 11. febrúar fjallar Friðrika Benónýsdóttir um „umræðuna“ svokölluðu, um ráðningu leikhússtjóra við stóru leikhúsin tvö í Reykjavík. Stöður leikhússtjóra eru sem sagt að losna og þá veltir fólk fyrir sér hverjir komi helst til greina sem næstu hæstráðendur í íslensku leikhúslífi en þeir sem gegna þessum stöðum hafa mikil tækifæri til þess að hafa áhrif á þróun leikhússins á næstu árum.

Eitthvað virðist Friðrika rugla saman ólíkum hlutum varðandi hæfniskröfur til verðandi stjórnenda leikhúsanna og leggur þar að jöfnu menntun á sviði menningarstjórnunar og MBA-gráðu án þess þó að skýra almenna fordóma sína gagnvart þessum ólíku gráðum neitt frekar. Virðist hún þó helst halda að framhaldsgráða í stjórnun leiði til einhvers konar dómgreindarbrests varðandi listræna stefnu og að annaðhvort hugsi fólki um rekstur eða list. Jafnvel að sami aðili muni aldrei ná utan um bæði þessi svið, um svo ólíka eðliseiginleika sé að ræða.

Nú er ekki rými hér til þess að elta ólar við þá römmu tvíhyggju lífs og listar sem kemur fram í greininni eða þær stæku staðalmyndir af listamönnum sem mara undir yfirborði vandlætingarinnar. Ég vil frekar nota þetta tækifæri til þess að útskýra ákveðin atriði varðandi fræðasviðið menningarstjórnun.

Menningarstjórnun er heiti á rannsóknasviði og kennslugrein sem boðið hefur verið upp á í meistaranámi við Háskólann á Bifröst síðan 2004. Viðfangsefni menningarstjórnunar er samspil hugmynda um hlutverk menningar, lista, menningarstofnana og reksturs. Tekið er á ýmsum goðsögnum um stjórnun, listir og menningu, til dæmis þeirri að efnisleg takmörk eigi ekki við í listum, að menningarstarfsemi sé ekki vinna eða að listamenn geti ekki skilið rekstur. Nemendur okkar á Bifröst koma víða að en flestir hafa þeir talsverða reynslu af því að starfa við list sína eða vinna að menningarmálum.

Framhaldsnám í stjórnun skerðir ekki listrænt innsæi fólks. Þvert á móti gerir nám fólki auðveldara fyrir að gera listræna sýn sína að veruleika, vinna með fólki, losa sig við fordóma og dogmatískan dilkadrátt.




Skoðun

Sjá meira


×