Skoðun

Grein sem er í alvörunni ekki um peninga

Haraldur F. Gíslason skrifar
Í dag, 6. febrúar, er dagur leikskólans. Á þessum degi árið 1950 stofnuðu nokkrir frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Á þessum 64 árum hafa leikskólakennarar áunnið sér virðingu samfélagsins. Það hafa þeir gert með að því vinna af fagmennsku og alúð að uppeldi og menntun yngstu nemenda skólakerfisins.

Leikskólakennarar hafa barist fyrir að menntun þeirra standi jafnfætis menntun kennara á öðrum skólastigum. Viðurkenning á því að menntun yngri barna er ekki síður mikilvæg en þeirra sem eldri eru hefur náðst. Leikskólakennarar hafa öðlast skilning samfélagsins á því að lengi býr að fyrstu gerð og góður grunnur mun fylgja einstaklingum á jákvæðan hátt út lífið.

Í dag er svo komið að ekki er hægt að hugsa sér skólakerfið án leikskólastigsins. Leikskólakennarar eru mikilvægur þáttur í grunnstoðum þess samfélags sem við höfum mótað. Leikskólastigið hefur þróast mjög hratt á undaförnum áratugum. Leikskólum hefur fjölgað mjög mikið og nær öll börn tveggja til sex ára stunda nám í leikskóla. Í leikskólanum fögnum við fjölbreytileikanum og reynum allt sem við getum til að mæta hverjum og einum á þeim stað sem þeir eru staddir. Námsleið leikskólans er í gegnum leikinn. Sú námsleið var vanmetin mjög lengi en núna sjást mörg dæmi þess að nám í gegnum leik er að ryðja sér til rúms víðar en í leikskólum.

Skólakerfi eiga að vera í sífelldri þróun. Verkefni samfélagsins á næstu árum verður að fjölga leikskólakennurum svo um munar. Það verður ekki gert nema leikskólakennarastarfið verði samkeppnisfært við önnur sérfræðistörf á vinnumarkaði.

Ég hef ekki nefnt peninga einu orði í þessari stuttu grein eða svona næstum því.

Til hamingju með daginn.




Skoðun

Sjá meira


×