Skoðun

Getur faðmlag fallið undir sjálfbærni?

Dýrleif Skjóldal skrifar
Í leikskólanum Álfaborg á Svalbarðsströnd erum við að vinna að nýrri skólanámskrá. Hún á að taka mið af lögum og reglugerðum, aðalnámskrá og skólastefnu sveitarfélagsins. Í aðalnámskrá er kveðið á um að vinna skuli með svokallaða grunnþætti náms, sem eru:

Læsi í víðum skilningi

Sjálfbærni

Heilbrigði og velferð

Lýðræði og mannréttindi

Jafnrétti

Sköpun



Einkunnarorð okkar skóla eru: Umhverfi – Umhyggja – Uppgötvun.

Einnig er Álfaborg svonefndur „Grænfánaskóli“, þ.e. hefur fengið viðurkenningu

Landverndar og FEE (Foundation for Environmental Education) fyrir að vera skóli á grænni grein.

Það segir sig sjálft að þegar vinna þarf svona plagg í dagsins önn þá þarf að vera hægt að tengja það vinnunni. Því ákváðum við að nota þennan vetur í að vinna út frá

einkunnarorðum okkar og tengja þau við grunnþættina og skrá niður á blað, hvernig hvert verkefni sem við förum í með börnunum, tengist þeim. Við ákváðum jafnframt að skipta árinu niður í tímabil þannig að í haust beindum við athyglinni að umhverfinu og nú að loknum jólum og fram undir páska beinist athygli okkar að umhyggjunni. Í vor og sumar verður það svo uppgötvunin sem fær athygli okkar.

Þáttur barnanna er misjafn eftir aldri en þau eru höfð með í ráðum um val verkefnanna og útfærslu á þeim. Foreldrar hafa fengið kynningu á því hvað við erum að gera og munu, þegar samantekt á verkefnunum hefst, verða með í ráðum.

Í ljós kom í haust að árleg verkefni eins og t.d. berjaferð, sultugerð, gönguferðir ýmiss konar, söfnun á laufum í haustlitum, þekking á eigin fjölskyldu og húsum, falla ákaflega vel að umhverfisþættinum og öllum grunnþáttunum. Það sem kannski var snúnara var að skoða hvort kynning á sjálfum sér, lita-, stafa- og tölustafaþekking gæti fallið að umhverfi og grunnþáttum? Þá þarf maður að velta því fyrir sér hvað fellur undir orðið umhverfi? Þarf einstaklingurinn ekki líka að vera læs á umhverfi sitt? Er sú grunnþekking að þekkja sjálfan sig, liti, stafi og tölur ekki fyrsta skrefið á þeirri braut? Það teljum við og því má segja að grunnþátturinn læsi í víðum skilningi smelli þar eins og flís við rass. Suma grunnþætti menntunar er auðvelt að sjá út úr verkefnunum en aðrir eru okkur ekki eins

tamir. Sjálfbærni er einn af þeim sem starfsfólki, foreldrum og börnum er framandi. Hvað er það og er það eitthvað sem börn í leikskóla þurfa að læra?

Sjálfbær þróun er nýlegt hugtak sem hvílir á þremur stoðum, efnahags-, félags- og

umhverfisstoð (ég sé alltaf fyrir mér tertufat með þrem fótum sem mamma átti) og má

segja að gangi út á það að við högum gerðum okkar í dag þannig að þær skemmi sem

minnst möguleika fólks í framtíðinni. Ef einn eða tvo fætur vantar undir fatið þá hallar það og tertan getur runnið af og allt fer í klessu. Ef allir fæturnir eru brotnir af þá er tertufatið sannarlega ekki tilkomumikið og þá kakan ekki eins girnileg og hún ætti að vera, þ.e. hún sómir sér ekki á borðinu.

Í sjálfu sér er ekki erfitt að vinna með hugtökin sjálfbærni og umhverfi. Ein af stoðunum í sjálfbærninni tengist umhverfinu beint. Við í leikskólanum höfum í raun gert það í öll þau ár sem leikskólinn hefur verið starfandi en að gera hugtakið tamt og sjá það í verkum okkar er það sem verkefni okkar gengur út á. Þegar við tínum lauf í haustlitum erum við ekki að ganga á trén og möguleika þeirra til að lifa af. Við erum heldur ekki að flytja inn föndurgerðarefni um langan veg þar sem farartæki sem flytja það menga og spilla möguleikum framtíðar barna til að lifa í hreinu landi/veröld, né að eyða fjármunum í að kaupa það!

En hvernig tengjum við hugtökin sjálfbærni og umhyggju?

Það er m.a verkefnið núna. Fyrir utan það að sýna leikskólabörnunum okkar umhyggju í daglegum störfum og námi þeirra þá er það líka okkar verkefni að kenna þeim að sýna umhyggju. Umhyggju gagnvart sjálfu sér, öðrum og öðru. Er faðmlag/knús sjálfbært?

Hmm…Efnahagsstoðin laskast ekkert við það, það mengar ekki eða skemmir og það bætir samfélög. Það er mikilvægt fyrir eigin velferð og annarra. Já, ég myndi segja það.

Faðmlag/knús er sjálfbært!

Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert og þann dag erum við hvött til að vekja athygli á leikskólanum og starfi hans. Þann dag ætlum við í Álfaborg að sýna og selja brot af afrakstri vinnu okkar með umhyggju í Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Við völdum að beina umhyggju okkar einnig yfir hnöttinn. Við viljum styrkja börn sem orðið hafa fyrir barðinu á fellibylnum sem gekk yfir Filippseyjar í haust. Með umhyggju fyrir öðrum í huga hafa fæðst listaverk og innblásturinn að þeim höfum við sótt til einnar fremstu listakonu Filippseyja, Pacitu Abad (1946-2004) „konu litanna“ eins og hún var kölluð í listaheiminum. Sjá nánar á http://www.pacitaabad.com

Það eru spennandi dagar fram undan en það má að vísu segja um alla daga í leikskóla. Þar er allt að gerast, allir eru með og enginn dagur eins.

Fyrir hönd okkar í Álfaborg býð ég ykkur velkomin í Safnasafnið þann 6. febrúar kl.15-17 eða föstudaginn 7. feb. kl. 14-16.

Dilla (Dýrleif Skjóldal leikskólakennari)




Skoðun

Sjá meira


×