Skoðun

Lélegt leiguhúsnæði er braggar nútímans

Helga Ingólfsdóttir skrifar
Nú er ástandið á húsnæðismarkaði þannig að sumir líkja því við þá erfiðu tíma þegar fjölmargar fjölskyldur bjuggu í herbröggum sem byggðir voru hér af Bretum á stríðsárunum. Efnaminni einstaklingar og fjölskyldur þurfa í sumum tilfellum að greiða háa leigu fyrir lélegt húsnæði sem ekki var hannað til búsetu. Mikill skortur á hagkvæmu leiguhúsnæði ýtir leiguverði upp auk þess sem leigjendur margir hverjir búa við mikið óöryggi þar sem leigumarkaður hér er að mörgu leyti vanþróaður.

Nú eru sveitarfélög og verkalýðshreyfingin að skoða með hvaða hætti þessir aðilar geta komið að því að styðja við uppbyggingu á leiguíbúðum þar sem tryggt er að byggt sé á hagkvæman hátt af fagaðilum sem horfa til lengri tíma og þannig freista þess að hér verði í náinni framtíð hægt að bjóða fólki upp á íbúðir á viðunandi leigukjörum til langs tíma.

Mikilvægt er að endurskoða nýútkomna byggingarreglugerð og finna leiðir til þess að hún tefji ekki fyrir þessu mikilvæga verkefni en ýmsar kröfur, t.d. um rými í henni, eru til þess fallnar að hækka byggingarkostnað. Sveitarfélög geta lækkað lóðaverð til að liðka fyrir og lífeyrissjóðir geta komið með þolinmótt fjármagn. Þetta er sannarlega verðugt og spennandi viðfangsefni og áhugaverð nálgun á þetta mikilvæga verkefni. Ungt fólk í dag vill hafa valkosti í húsnæðismálum, heimurinn er þeirra leik- og starfssvið og sú binding sem felst í að kaupa sér íbúð hentar ekki öllum.




Skoðun

Sjá meira


×