Skoðun

Viltu raunhæfar kjarabætur?

Guðjón Sigurbjartsson skrifar
Fólk vill eðlilega aukinn kaupmátt eftir mörg mögur ár og því kom ekki á óvart að fyrirliggjandi samningar voru almennt ekki samþykktir. Vandamálið er að meiri krónutöluhækkanir gagnast ekki launamönnum því þær auka verðbólgu sem tekur krónutöluhækkanir snarlega til baka og hækka auk þess skuldirnar. Hvað er þá til ráða ef eitthvað? Er hægt að bæta kaupmátt fólks með öðrum hætti?

Sú leið er sem betur fer til. Þessi leið gagnast bæði launamönnum og atvinnulífinu almennt þó svo að meirihlutinn á Alþingi fylgi annarri stefnu, svo furðulegt sem það nú er.

Raunhæfasta leiðin til að bæta lífskjörin er að opna á tollfrjálsan innflutning matvæla. Markaðsvernd landbúnaðarins nemur um 12 milljörðum króna á ári og styrkir á fjárlögum öðru eins. Markaðsverndin er sú upphæð sem neytendur myndu greiða minna á ári fyrir sömu matvæli ef opið væri á tollfrjálsan innflutning. Þessi aðgerð myndi bæta stöðu meðalheimilis beint um 200.000 kr. á ári eða 4% af útgjöldum. Fyrir þau tekjuminni er hlutfallið hærra, jafnvel allt að 10%.

Jákvæð óbein áhrif verða einnig veruleg. Verðtryggð lán hækka 4% minna en ella og frjáls samkeppni mun auk fjölbreytni matvæla og lækka verð. Samtals bætir þetta hag heimila verulega eða um 40 til 50 þús. kr. á mánuði.

Önnur leið til að bæta hag heimilanna, sem reyndar tekur lengri tíma, er að taka upp traustan alþjóðlegan gjaldmiðil, evruna. Það mun einnig bæta hag heimilanna um tugi þúsunda á mánuði vegna lægri vaxtagreiðslna og þess að atvinnulífið mun eflast og dafna hraðar með traustum gjaldgengum gjaldmiðli.

Kröfur til stjórnvalda

Verkalýðshreyfingin ætti að knýja á um raunhæfar kjarabætur til framtíðar með því að beina þessum kröfum að stjórnvöldum:

1 Opnað verði á tollfrjálsan innflutning matvæla.

Allar þjóðir Evrópusambandsins hafa opið á viðskipti með matvæli. Þær styrkja sinn landbúnað líka þrisvar sinnum minna en við að meðaltali, sem hlutfall af heildar opinberum útgjöldum. Landbúnaðarstyrkir kosta skattgreiðendur í hærri sköttum sem þyrfti að lækka einnig. Okkar landbúnaður er bæði með belti og axlabönd og kostar heimilin allt of mikið, sérstaklega þau efnaminni. Eins og margar velmeinandi þjóðirnar ættum við að opna matvælamarkað okkar, líka fyrir þróunarlöndunum og hjálpa völdum svæðum að þróa sinn landbúnað og útflutning afurða m.a. til okkar. Slík þróunaraðstoð er raunhæf og árangursrík.

2 Þjóðaratkvæðagreiðsla verði samhliða sveitarstjórnakosningunum um hvort ljúka eigi aðildarsamningi við Evrópusambandið. Samningurinn verði síðan lagður undir þjóðina þegar hann liggur fyrir.

Báðir stjórnarflokkarnir hafa það í sinni stefnu að aðildarsamningum verði ekki fram haldið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir ýta framkvæmdinni á undan sér af hræðslu við að samþykkt verði að ljúka samningum. Það þarf því að hjálpa þeim við að standa við loforðin sem þeir hafa gefið kjósendum sínum. Sumum þeirra finnst hlægilegt til þess að hugsa að þurfa að fara að þjóðarvilja, lengi skal manninn reyna.

Aðild að ESB gagnast heimilunum í landinu meðal annars með opnum viðskiptum og traustum alþjóðlegum gjaldmiðli. Þegar búið er að opna á innflutning landbúnaðarvara sbr. ofangreint, verður auðvelt að ná samningum því sjávarútvegurinn verður ekki vandamál eftir þær breytingar sem sambandið gerði nýlega á sinni sjávarútvegsstefnu. Með samningum fáum við tollfrjálsan aðgang fyrir fullunnar sjávarafurðir á Evrópumarkað, núna er á þeim 10% tollur. Það verður því nettó ávinningur af samningum hvað varðar sjávarútveginn og tækifæri opnast á sviði sem við kunnum vel til verka sem mun nýtast til athafna á alþjóðavísu.

Ef fólk vill sækja kaupmáttaraukningu og bætt lífskjör þá liggur leiðin um breytingar eins og þær sem að ofan er lýst en síður um krónutöluhækkanir launa. Gott og gleðilegt ár.




Skoðun

Sjá meira


×