Lífið

Handbók fyrir foreldra – samfélagsmiðlar og internetstjörnur

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hvort sem fólk vill tísta hugðarefni sínum í 140 stöfum, „gramma“ 612x612 px ljósmynd á góðri stundu eða „Pinteresta“ uppskrift að hollum kjúklingarétti, eru leiðir til þess að ná og deila góðum stundum í gegnum samfélagsmiðla nánast óteljandi.

Þá hafa margir öðlast heimsfrægð í gegnum miðlana, eins og sást kannski hvað best í Smáralind um síðastliðna helgi þegar „Vænararnir“ Nash Grier og Jerome Jarre heimsóttu verslunarmiðstöðina með þeim afleiðingum að öngþveiti myndaðist og nokkrir meiddust í múgæsingnum.

Atvikið kann að hafa komið mörgum sem eldri eru og láta sér Facebook nægja í opna skjöldu.

Vísir tók saman eins konar handbók um samfélagsmiðla sem eru hvað vinsælastir í dag og fólk sem hefur öðlast „internet-heimsfrægð“ í gegnum þá.

Facebook

Facebook er vinsælasti samfélagsmiðill í heimi og yfir milljarður manna nýtir sér miðilinn.

Facebook er heimasíða, en einnig eru til Facebook-„öpp“ fyrir Apple- og Android-græjur.

Notendur stofna reikning og geta hlaðið upp myndum, áhugamálum, símanúmeri, tölvupóstfangi og fleiri persónulegum upplýsingum. Fólk getur haft samskipti við vini sína og aðra í gegnum einkaskilaboð, eða skilið eftir skilaboð á veggjum vina sinna sem aðrir geta þá líka séð. Þá er hægt að spjalla við aðra notendur sem eru á síðunni samtímis í spjallglugga. Einnig er hægt að bjóða vinum sínum á viðburði, stofna hópa og svo mætti lengi telja.

Camila Coelho heldur úti Instagram-reikningnum MakeupbyCamila.AFP/NordicPhotos


Instagram


Instagram er ljósmynda-„app“ hannað fyrir iPhone, en er einnig hægt að nota í iPad og Android-símum. Instagram notar myndavélina á tækinu þínu til að taka myndir eða myndskeið og þaðan er hægt að velja síu á myndina, sem til að mynda breytir litnum eða áferðinni.

Þannig hafa notendur Instagram, sem eru um 150 milljón talsins, sinn eigin reikning þar sem þeir geta séð myndir sem vinirnir setja inn á sinn reikning. Þannig geta notendur látið sér líka við myndir vina sinna eða skilið eftir athugasemdir.

Camila Coelho er með 1.672.525 fylgjendur á Instagram og heldur úti reikningnum MakeupbyCamila. Camila er frá Brasilíu en býr í Bandaríkjunum og öðlaðist frægð sína í gegnum Instagram og YouTube, þar sem hún hleður upp myndböndum og myndum af tísku- og förðunarráðum.

Pinterest

Pinterest er miðill sem gerir notendum kleift að fylgjast með áhugamálum sínum og sækja hugmyndir til annarra notenda. Á Pinterest safna notendur myndefni eða textum sem þeir koma fyrir á eins konar töflu og geta deilt því. Þannig er hægt að búa til flokka undir myndefnið, á borð við viðburði, áhugamál, mat og þar fram eftir götunum og notendur geta fylgst með áhugamálum sínum eftir flokkunum.

Notendur geta skoðað töflur annarra, deilt þeim á eigin töflu, eða látið sér líka við myndefni annarra.

Christine Martinez er stílisti frá Kaliforníu sem deilir Pinterest-reikningi sínum með hundinum Miles. Hún hefur rúmlega fimm og hálfa milljón fylgjenda og 56 töflur, eða flokka. Þeir eru meðal annars gjafahugmyndir fyrir minna en $50, fylgihlutir fyrir hunda, græjur og dót, tíska svo einhverjir séu nefndir.

Snapchat

Um 50 milljón manns um allan heim nýta sér þjónustu Snapchat, samkvæmt heimildum Forbes-tímaritsins.

Snapchat er „app“ fyrir iPhone, iPad og Android-tæki sem gerir notendum kleift að senda ljósmyndir og örmyndskeið til annarra notenda. Notendur geta svo tímastillt efnið, þannig að það er sýnilegt þeim sem tekur á móti í 1-10 sekúndur. Svo eyðist efnið og ekki er hægt að nálgast það aftur.

Tumblr

Áður en samfélagsmiðlar komu til sögunnar voru bloggsíður gríðarlega vinsælar. Tumblr er blanda af hvoru tveggja.

Tumblr gerir notendum sínum kleift að deila hverju sem er. Texta, ljósmyndum, tilvitnunum, tónlist eða myndskeiðum hvaðan sem er, úr tölvunni, símanum, tölvupósti og svo mætti lengi telja.

Matt Binder bjó til bloggið Public Shaming, þar sem hann tekur skjáskot af færslum á Twitter og Facebook-þráðum sem eru móðgandi í garð þjóðfélagshópa eða einstaklinga. Bloggið nýtur gríðarlegra vinsælda og hafa mál sem hann hefur vakið athygli á ratað á síður fjölmiðla.

Twitter

Twitter hefur oft verið lýst sem sms-i internetsins. Miðillinn virkar þannig að skráðir notendur geta lesið tíst og tíst sjálfir. Tíst er eins og lítið blogg, en færslan má ekki fara yfir 140 stafi.

Hægt er að merkja færslur sínar með kassmerki (#) eftir umfjöllunarefni. Þannig geta ókunnugir rætt saman um sameiginlegt málefni.

Einnig er hægt að nota Twitter í gegnum heimasíðuna, SMS, eða „appið“ sem hægt er að fá í bæði Apple og Android.

Íslendingar sem hafa flesta fylgjendur á Twitter eru Björk með um hálfa milljón fylgjenda, hljómsveitirnar Of Monsters and Men með tæplega 300,000 fylgjendur, og Sigur Rós með tæplega 170,000 fylgjendur. Þá er Jón Þór Birgisson, betur þekktur sem Jónsi í Sigur Rós, með um 152,000 fylgjendur.

Vine

Vine er sambærilegt samskiptamiðlinum Instagram, þar hafa notendur sinn eigin reikning þar sem þeir geta séð myndskeið sem vinirnir setja inn á sinn reikning. Þá er hægt að deila myndböndunum á Facebook og á Twitter.

Grundvallarmunurinn er sá að einungis er hægt að hlaða upp sex sekúndna örmyndböndum á Vine.

KingBach er tuttugu og sex ára gamall og hefur flesta fylgjendur á samskiptamiðlinum Vine, tæplega fimm milljónir talsins. KingBach setur inn grínmyndskeið sem njóta gríðarlegra vinsælda.

Honum hefur tekist að hafa upp úr frægðinni, en hann selur boli með slagorði sínu: But That Backflip Though, selur skopstælingar af vinsælum lögum á iTunes og rukkar fyrirtæki fyrir að búa til Vine undir þeirra nafni.

Blair og Elle Fowler urðu frægar á YouTube.


YouTube


YouTube er heimasíða þar sem hægt er að nálgast myndbönd. Heimasíðuna heimsækir rúmlega milljarður notenda í hverjum mánuði. Á heimasíðunni geta notendur hlaðið upp, skoðað og deilt hvers kyns myndböndum. Þá er hægt að láta sér líka við myndbönd annarra notenda og skilja eftir athugasemdir fyrir neðan myndböndin.

Elle Fowler, fædd 1998, og Blair Fowler, fædd 1993, eru systur sem hlaða upp tísku- og hönnunarkennslumyndböndum á YouTube undir nöfnunum AllThatGlitters21 (Elle) og juicystar07 (Blair). Blair hefur tæplega tvær milljónir fylgjenda og systir hennar, Elle, rúmlega milljón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.