
Norræn samstaða í hvikulum heimi
Áhrif loftslagsbreytinga og annarrar hnattrænnar þróunar skapa heimsbyggðinni sífellt nýjar áskoranir og tækifæri. Norrænu ríkjunum hefur tekist vel til að bregðast við þessum breytingum eins og fjölmargar rannsóknir sýna. Sá árangur Norðurlandanna hefur verið öðrum áhugaverð fyrirmynd en við getum gert enn betur.
Samvinna skilar mestum árangri þegar mæta þarf krefjandi verkefnum samtímans. Aukin norræn samvinna er að okkar mati lykill að lausn þeirra verkefna sem við stöndum andspænis. Við erum reiðubúin að leggja fram þekkingu okkar og reynslu í þeirri viðleitni að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti.
Á fundi okkar í Helsinki í gær ræddum við með hvaða hætti Finnland og Ísland geta í sameiningu nýtt styrk sinn enn frekar í þágu norrænnar samvinnu. Sameiginleg gildi Norðurlandanna byggjast á lýðræði, réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og virðingu fyrir mannréttindum. Þetta eru leiðarljós stefnu okkar jafnt innanlands sem og á vettvangi alþjóðastofnana, meðal annars innan Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og svæðisbundinna stofnana í Norður-Evrópu.
Norræn samvinna á sviði utanríkis- og öryggismála er í mótun. Mikilvægt skref sem þéttir raðirnar var stigið í Helsinki árið 2011 þegar allir fimm utanríkisráðherrar Norðurlandanna sammæltust um norræna samstöðuyfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á að ríkin muni koma hvert öðru til aðstoðar þegar hætta steðjar að, svo sem af völdum náttúruhamfara, af mannavöldum og vegna tölvu- og hryðjuverkaárása.
Merkur áfangi
Samvinna Norðurlandanna á sviði varnarmála hefur eflst enn frekar innan NORDEFCO-samstarfsins á síðustu árum. Merkum áfanga verður náð í samstarfi norrænu ríkjanna þegar Svíþjóð og Finnland taka þátt í loftrýmiseftirliti og tengdri þjálfun á Íslandi í næsta mánuði.
Samvinna okkar byggist á heildstæðri sýn á öryggismál. Við erum sammála um mikilvægi forvarna og viðbúnaðar þegar tekist er á við öryggisáskoranir samtímans, hvort sem um ræðir mansal, netöryggi, neyðarástand sem krefst mannúðaraðstoðar eða umhverfismál á borð við loftslagsbreytingar.
Breytingar og áskoranir í nærumhverfi okkar á norðurslóðum hafa áhrif á stöðu Íslands og Finnlands. Norðurskautsráðið er nú meginvettvangur alþjóðlegrar samvinnu á norðurslóðum. Það hefur þróast frá því að vera vettvangur stefnumarkandi umfjöllunar yfir í samstarfsvettvang þar sem ákvarðanir eru teknar. Gerð lagalega bindandi samninga um leit og björgun og viðbrögð við olíuvá undirstrika þessa þróun. Það eru gagnkvæmir hagsmunir okkar að treysta enn frekar hlutverk Norðurskautsráðsins.
Svæðisbundin og alþjóðleg samvinna stuðlar að öryggi Norðurlandanna í víðtækum skilningi. Hún er lykillinn að framtíðinni.
Skoðun

Samherji bara sjúkdómseinkenni
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifar

Sama hvaðan gott kemur? Sýnum góða starfshætti í loftslagsaðgerðum
Bergur Sigfússon, Edda Sif Pind Aradóttir, Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir og Sigurður Reynir Gíslason skrifar

Verkalýðshreyfingin málsvari þeirra sem verst standa
Drífa Snædal skrifar

Svar til áhyggjufulls skipstjóra Samherja
Jón Trausti Reynisson skrifar

Barátta fyrir nýrri stjórnarskrá er barátta gegn spillingu!
Katrín Oddsdóttir skrifar

Hver bjó til ellilífeyrisþega?
Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Æ, æ og Úps!
Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar

Pisa og skekkjan í skólakerfinu
Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar

Saklaus uns sekt er sönnuð
Páll Steingrímsson skrifar

Mikilvægi sjálfboðaliða
Þorgeir Þorsteinsson skrifar

Fjárlög næsta árs á einni mínútu
Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Dagur sjálfboðaliðans: Sjálfboðaliðastörf á vinnu- og skólatíma?
Sólveig Ása B. Tryggvadóttir skrifar

Opið bréf til Skúla Helgasonar og Dags B. Eggertssonar
Lydía Dögg Egilsdóttir skrifar

Borgarfulltrúa á fæðisfé fanga
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Fjármálalæsi Lóu
Eyþór Arnalds skrifar