Lífið

Fann starfsnám í Túnis á Facebook

Ugla Egilsdóttir skrifar
Þórdís við mynd af fyrrverandi forseta Túnis árið 2010. Mynd af honum varð að hanga uppi á öllum veitingastöðum í Túnis fyrir byltingu.
Þórdís við mynd af fyrrverandi forseta Túnis árið 2010. Mynd af honum varð að hanga uppi á öllum veitingastöðum í Túnis fyrir byltingu. Mynd/Einkasafn
Þórdís Nadia Semichat er á leiðinni í starfsnám í Túnis. Starfsnámið er hluti af námi hennar á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands. Í starfsnáminu verður hún aðstoðarleikstjóri kvikmyndaleikstjórans Saber Zammouri við gerð heimildarmyndar.

„Heimildarmyndin fjallar um listasenuna í Túnis og hvernig hún hefur breyst eftir byltingu,“ segir Þórdís Nadia. 

Faðir Nadiu er frá Túnis. „Ein af ástæðunum fyrir því að ég vildi fara þangað var að mig langaði til að prófa að búa þarna í einhvern tíma til þess að fá dýpri tengingu við rætur mínar,“ segir hún. „Ég er auðvitað þaðan líka þótt ég sé uppalin á Íslandi.“

Nadia setti sig í samband við Saber í gegnum Facebook. „Ég var að reyna að byggja mér upp tengslanet þarna, en vegna þess að ég kann ekkert í arabísku og mjög lítið í frönsku gekk mér illa að gúggla listamenn. Þá brá ég á það ráð að nota Facebook til að leita að listamönnum.

Það endaði með því að ég komst í samband við myndlistarmann sem er götulistamaður. Hann gerir graffítí og málverk og er víst á mikilli uppleið. Ég talaði við hann og útskýrði að ég væri að leita mér að starfsnámi, og spurði hvort hann gæti bent mér á einhvern til þess að vinna með.

Hann vísaði mér á þennan leikstjóra sem ég komst svo í starfsnám hjá,“ segir hún. Þórdís Nadia lenti í Túnis í gær. „Ég veit rosalega takmarkað um þetta enn sem komið er, en ég held að listasenan hafi orðið kröftugri eftir byltingu.

Fólk bjó við einræði í svo mörg ár þar til forsetanum var steypt af stóli árið 2011. Það var í raun ekkert málfrelsi. Ég fór til Túnis árið 2010, rétt áður en byltingin hófst. Þegar ég spurði innfæddan vin minn úti á götu hvað honum fyndist um forsetann yppti hann bara öxlum og sagðist ekki geta talað um það.

Svo þegar við vorum komin afsíðis sagði hann: „Mér finnst hann hræðilegur og hann ætti að fara í fangelsi.“ Hann treysti sér ekki til að segja þetta úti á götu af ótta við að einhver heyrði til hans.“

Foreldrar Þórdísar Nadiu eru kvíðnir yfir ferðalagi hennar. „En ég er með frekar gott innsæi og ég treysti því bara,“ segir hún. „Ég hef allavega ekki slæma tilfinningu fyrir þessu fólki sem ég er búin að vera í samskiptum við. Fólk á það til að vera óþarflega áhyggjufullt vegna þess að Túnis er svo framandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.