Skoðun

Óumbeðið sjálfstæði Seðlabanka

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur í annað skiptið á stuttum tíma stokkið upp á nef sér gagnvart Seðlabankanum, að því er virðist af því að Seðlabankinn sinnir sínu lögbundna hlutverki.

Í nóvember létu forsvarsmenn bankans í ljósi ákveðnar áhyggjur af stærsta kosningamáli flokks forsætisráðherrans, róttækustu skuldaleiðréttingu í heimi. Ráðherrann brást reiður við, kallaði nálgun Seðlabankamanna "sérkennilega" og sakaði þá um að ástunda fremur pólitík en hagstjórn.

Í vikunni birti svo Seðlabankinn mat sitt á efnahagsáhrifum skuldalækkunarinnar. Bankinn telur að hún muni auka einkaneyzlu og innflutning, draga úr þjóðhagslegum sparnaði og viðskiptaafgangi og stuðla að lægra gengi krónunnar en ella. Þar með geti aðgerðirnar ýtt undir verðbólgu og útheimti harðara aðhald peningastefnunnar.

Þetta mat kemur ekki á óvart. Það fer hins vegar ógurlega í taugarnar á forsætisráðherranum að Seðlabankinn skuli leyfa sér að tala svona um uppáhaldskosningamálið hans. Hann furðaði sig á því á Viðskiptaþingi á miðvikudaginn að Seðlabankinn færi "óumbeðinn" í þessa greiningu, ekki sízt af því að hann ætti eftir að skila af sér greiningu á greiðslujöfnuði Íslands, sem ríkisstjórnin hefði beðið um fyrir nokkru.

Talsmaður Seðlabankans stakk snyrtilega upp í forsætisráðherrann í viðtali hér í blaðinu í gær; benti á að bankinn nyti sjálfstæðis í því hlutverki sínu að passa upp á stöðugt verðlag í landinu og óhjákvæmilega þyrfti að greina efnahagsáhrif jafnumfangsmikilla aðgerða stjórnvalda. Þessi vinna væri jafnframt forsenda þess að hægt væri að fara í greiðslujöfnuðargreininguna.

Hnútukast Sigmundar Davíðs í Seðlabankann er ekki gott fyrir traust á efnahagslífinu. Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, sagði í Fréttablaðinu í gær að hann vissi ekki dæmi þess að forsætisráðherrar annarra ríkja brygðust þannig við gagnvart seðlabönkum. Erlendir greinendur sæju skortinn á trausti stjórnvalda í garð Seðlabankans og það veikti tiltrú þeirra á að hér yrði hægt að koma á stöðugleika.

Sjálfstæði Seðlabankans er ekki fundið upp í bankanum. Það er ákvörðun Alþingis, að grunni frá 2001, í valdatíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Rökin eru meðal annars að þannig séu stöðugleiki og fagmennska við stjórn peningamála betur tryggð en ef pólitíkusar eru með puttana í henni. Seðlabankinn gegnir líka sjálfstæðu greiningarhlutverki og þar með aðhaldshlutverki gagnvart ríkisstjórninni. Rifja má upp að síðast þegar þingið hnykkti á faglegu sjálfstæði bankans, meðal annars með stofnun peningastefnunefndar, studdi allur þingflokkur Framsóknar þá breytingu.

Forsætisráðherrann verður að sætta sig við að Seðlabankinn gerir og segir ekki alltaf það sem honum þóknast. Kannski þarf hann líka að rifja upp það sem honum hefur orðið tíðrætt um; að það sé hægt að komast að skynsamlegustu niðurstöðunni með rökræðum. Það útheimtir að menn hlusti á rök sem þeir eru ekki endilega sammála og útskýri þá sína hlið mála betur, í staðinn fyrir að fara í fýlu og skamma þá sem eru á annarri skoðun.




Skoðun

Sjá meira


×