Danmörk vann stórsigur á Íslandi í lokaleik milliriðlakeppninnar á EM í handbolta. Strákarnir okkar voru einfaldlega númeri of litlir fyrir Evrópumeistarana.
Eftir ágæta byrjun sigu Danir fram úr um miðjan fyrri hálfleikinn en staðan að honum loknum var 17-13, heimamönnum i vil.
Danir stungu svo endanlega af í seinni hálfleik, ekki síst vegna frábærrar frammistöðu Jannick Green í markinu. Hann varði 23 skot í dag, þar af eitt víti.
Strákarnir spiluðu að mörgu leyti ágætlega í fyrri hálfleik, sér í lagi í sóknin. Ísland skoraði þrettán mörk þrátt fyrir að Green hafi farið á kostum í markinu og varið sextán skot.
Það vantaði hins vegar mikið upp á varnarleikinn sem sást best á því að Danir skoruðu nánast að vild með langskotum. Hver danska skyttan á fætur öðrum lék lausum hala og heimamenn röðuðu mörkunum inn.
Strákarnir héldu í við Danina fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik en eftir að heimamenn hertu tökin í vörninni var öll von endanlega úti. Green varði ágætlega áfram en okkar menn áttu erfitt með að finna leiðina í gegnum dönsku vörnina.
Á meðan gengu Danir á lagið og skoruðu níu mörk gegn þremur á um fimmtán mínútna kafla. Allt gekk á afturfótunum hjá okkar mönnum sem vilja sjálfsagt gleyma þessum leik sem allra fyrst.
Ísland fær þó tækifæri til að kveðja mótið í Danmörku á jákvæðum nótum því að strákarnir mæta Póllandi á föstudaginn í leik um fimmta sætið.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tíu mörk fyrir Ísland og var langmarkahæstur. Aron Pálmarsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson skoruðu þrjú hver.
Umfjöllun: Danmörk - Ísland 32-23 | Danir léku sér að strákunum okkar
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
