„Já, það er nóg að gera, það koma alltaf upp lekamál,“ segir Ásgeir Björgvinsson, framkvæmdastjóri Lagnaþjónustunnar á Sefossi. Auglýsing frá fyrirtækinu hefur vakið mikla athygli og farið víða á Facebook.
Þar segir: „Við tökum að okkur lekavandamál!“ og er látið líta út fyrir að auglýsingin sé stimpluð sem trúnaðarmál. Greinileg vísun í lekamálið svokallaða.
„Þetta er bara létt grín. Góðlátlegtlegur húmor,“ segir Ásgeir framkvæmdastjóri og heldur áfram:
„Fyrirtækið Skapandi hugmyndahús gerir auglýsingarnar fyrir okkur. Við fengum þá til þess að henda í þessa. Svo setti ég hana á Facebook í gær. Við höfum fengið fullt af „lækum“ og deilingum í kjölfarið.“ Ásgeir segir þó að auglýsingin hafi ekki enn skilað auknum viðskiptum hingað til, enda ekki búin að vera sólarhring í loftinu.
Auglýsingin hefur fengið 21 „læk“ á Facebook-síðu Lagnaþjónustunnar og hefur verið deilt tuttugu og einu sinni.

