Lífið

Eitt verkefni á viku fyrir heimilið

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Elva Björk Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans setti í loftið bloggsíðu til að halda utan um hugmyndir sína fyrir heimilið. Elva framkvæmir eina hugmynd á viku og setur inn lýsingar og myndir af verkefninu. Elva málaði skúffurnar á kommóðunni, spreyjaði kollana og prjónaði pulluna á gólfinu.
Elva Björk Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans setti í loftið bloggsíðu til að halda utan um hugmyndir sína fyrir heimilið. Elva framkvæmir eina hugmynd á viku og setur inn lýsingar og myndir af verkefninu. Elva málaði skúffurnar á kommóðunni, spreyjaði kollana og prjónaði pulluna á gólfinu. MYND/GVA
Elva Björk Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur heldur úti bloggsíðunni verkefni vikunnar. Þar setur hún inn myndir og lýsingar á hugmyndum sem hún framkvæmir fyrir heimilið.

Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir skapa og er stöðugt eitthvað að brasa. Mér líður hálf illa ef ég er ekki að gera eitthvað,“ segir Elva Björk Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagurkeri en hún deilir hugmyndum sínum á bloggsíðunni Verkefni vikunnar, milli vakta á bráðamóttöku Landspítalans.

Elva notaði hitaplatta úr korki til að búa til korktöflu á vegg. Plattana málaði hún í frískum lit áður en hún festi þá upp á vegg. Krítartöfluna til hliðar útbjó hún úr myndaramma sem hún tók glerið úr og málaði bakið með krítarmálningu.
„Ég hugsaði bloggið sem ákveðið aðhald því ég byrja svo oft á einhverju en klára það ekki. Hefst handa um leið og mér dettur eitthvað í hug en í miðjum klíðum fæ ég aðra hugmynd og byrja þá strax á henni,“ segir hún sposk.

„Ég átti alveg eins von á að þetta yrði kvöð, þegar síðan væri komin í loftið, en það varð alls ekki raunin. Mér finnst þetta rosalega gaman og gefandi og er hæst ánægð með þetta framtak hjá mér,“ segir hún hlæjandi og hefur ekki áhyggjur af því að verða uppiskroppa með hugmyndir.

Kollana fann Elva í Góða hirðinum. „Ég ákvað að hafa kollana ekki eins, en í sömu litum og mig langaði til að annar þeirra yrði svolítið eins og honum hefði verið dýft í lakkið.“
„Ég er með heilan helling af verkefnum á „To-do listanum“ og er alltaf að ýta einhverjum þeirra  ftar á listann þegar ég fæ nýja hugmynd sem ég „verð“ að framkvæma strax. Núna er ég til dæmis að hekla gólfmottu, sem var ekki efst á listanum. Ég gat bara ekki beðið með þetta. Ég rakst nefnilega á ómótstæðilega finnska bómull í versluninni Storkinum sem er vélprjónuð í grófar lengjur og henta því fullomlega í gólfmottur.  Ég valdi meira að segja litina í mottuna með símabekk í huga sem ég ætla að gera upp og láta bólstra við fyrsta tækifæri. Þetta verður langtímaverkefni,“ útskýrir Elva og segir fjölskylduna sýna framkvæmdagleiði hennar fullan skilning.

Fyrsta verkefni Elvu var að taka gamlan stól í yfirhalningu. Hún spreyjaði stólinn í bronslit og bjó til nýja sessu úr púðaveri frá IKEA.
„Stundum fæ ég að heyra eitthvað, þegar ég er búin að dreifa pappakössum um allt stofugólf til að sletta ekki málningu á gólfið. Eða þegar fjölskyldan kemur heim og húsið angar af spreyi og málningu, en yfirleitt eru allir sáttir við lætin í mér.“

Eina vikuna fléttaði Elva hálsmen og armbönd úr borðum, perluböndum og keðjum.
En hefur eitthvað af verkefnum vikunnar farið í vaskinn?

„Já,já það kemur alveg fyrir. Einu sinni ætlaði ég til dæmis að flétta gólfmottu úr efnisbútum og var heilan dag að rífa efni niður í ræmur. Svo sat ég við og  fléttaði og fléttaði en það kom hrikalega út. Næstum því það ljótasta sem ég hef séð. Sú tilraun endaði í ruslinu.“

Nánar má fylgjast með verkefnum Elvu á www.verkefnivikunnar.blogspot.com/






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.