Skoðun

Vörugjöld og vondir kaupmenn

Auður Jóhannesdóttir skrifar
Ég heiti Auður og ég er kaupmaður. Ég hef verið kaupmaður í tæp tíu ár og reyni að skammast mín ekkert sérstaklega fyrir það.

Það er gaman að versla og stunda viðskipti og ég legg mig fram um að veita góða þjónustu og eiga ánægjuleg samskipti við viðskiptavini mína jafnt sem birgja með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Það er nefnilega ekkert vit í viðskiptum sem ekki innifela ágóða fyrir alla hlutaðeigandi. Ef hallar óeðlilega á einhvern aðila er ljóst að viðskiptunum verður ekki haldið áfram lengur en það tekur þann sem ber skarðan hlut frá borði að finna hagkvæmari valkost.

Þess vegna er mér fyrirmunað að skilja hversu vinsælt það virðist á Íslandi að láta líkt og við lifum enn á tímum Jóns Hreggviðssonar þegar kaupmenn höfðu einkaleyfi á verslun á sínu svæði. Ef marka má orðræðuna mætti trúa að fátt hafi breyst síðan þá. Við kaupmenn mökum krókinn og lifum hátt á svita og blóði íslenskrar alþýðu og núna stefnum við víst á að stinga niðurfelldum vörugjöldum og lækkun á virðisaukaskatti beint í gulli hlaðnar pyngjurnar, eða hvað?

Það hefur verið baráttumál íslenskrar verslunar til fjölda ára að afnema vörugjöld sem eru ógegnsæ, skekkja samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu samhengi og eru furðulega samræmislaus sbr. þá staðreynd að láréttar brauðristar bera vörugjöld en ekki lóðréttar. Ég held að kaupmenn hafi einmitt fagnað manna hæst þegar ríkisstjórnin kynnti áform sín um afnám vörugjalda og hlakki til að lækka verð. Við erum nefnilega fyrir löngu búin að átta okkur á því að íslenskir neytendur eru langt í frá óupplýstir og fyrir löngu hættir að láta bjóða sér maðkað mjöl.

Það má svo alveg velta því fyrir sér hversu farsælt það er fyrir verslunina að svona ákvarðanir taki gildi eftir einhverja mánuði, það er erfitt að sjá fyrir sér annað en að verslunin þurfi að taka á sig vörugjöldin á þeim munum sem þegar er búið að framleiða eða flytja til landsins því að neytendur eru ekki fífl og þeir kaupa ekki vöru í dag sem þeir vita að verður á lægra verði eftir áramót, en það er víst heldur ekki í tísku að huga að aðlögunartíma viðskiptalífsins vegna stjórnvaldsákvarðana.

Hvað sem því líður þá legg ég til að við hættum að láta eins og við búum enn á nítjándu öldinni, Ísland sé einangrað og að hér gildi önnur samkeppnislögmál en annars staðar í hinum frjálsa heimi. Góðar stundir og gleðilega vörugjaldalausa verslun.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×