Lífið

Tortímandinn hafði mikil áhrif

Anton Sigurðsson leikstjóri.
Anton Sigurðsson leikstjóri.
Ungur og efnilegur kvikmyndaleikstjóri stígur fram á sjónarsviðið í haust þegar Anton Sigurðsson frumsýnir sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Myndin ber nafnið Grafir & bein og skartar mörgum af frægustu leikurum landsins í aðalhlutverkum.

Kvikmyndin fjallar um hjón sem missa dóttur sína á sama tíma og maðurinn gengur í gegnum mikla erfiðleika í rekstri eigin fyrirtækis. Stuttu síðar flytja þau í afskekkt hús til þess að annast frænku sína eftir að foreldrar hennar deyja á furðulegan hátt. Skömmu síðar fara undarlegir hlutir að gerast; dularfullt fólk heimsækir þau og svefnlausar nætur taka við í húsinu sem virðist vera reimt.

Anton segir handrit og persónur myndarinnar ekki eiga sér neina sérstaka fyrirmynd í raunveruleikanum. „Ég skrifaði handrit myndarinnar eftir að framleiðandi minn, Erlingur Guðmundsson, hvatti mig til að gera eitthvað nýtt og öðruvísi. Fyrir átti ég nokkur tilbúin handrit á lager en Erlingur hvatti mig til að skrifa handrit að hrollvekju, sem ég gerði. Hann samþykkti uppkastið og boltinn fór að rúlla af stað.“

Dularfullt fólk, svefnlausar nætur og reimleikar koma við sögu í kvikmyndinni Grafir & bein.
Erlingur benti honum fljótlega á að bera handritið undir Björn Hlyn Haraldsson leikara sem leist vel á og samþykkti að taka þátt. „Eftir að hafa landað Birni Hlyni fer allt á fullt og hlutirnir gerðust hratt. Nína Dögg Filippusdóttir kom fljótlega að verkefninu og tökur hófust fimm mánuðum síðar. Frá því Erlingur bar hugmyndina undir mig og þar til tökur hófust liðu því einungis tíu mánuðir.“

Auk Björns Hlyns og Nínu Daggar fara Gísli Örn Garðarsson, Elva María Birgisdóttir, Sveinn Geirsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þorsteinn Gunnarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Magnús Jónsson með helstu hlutverk.

Aðspurður hvort ekki hefði verið erfitt fyrir ungan leikstjóra að stýra svo stjörnum prýddum hópi í sinni fyrstu kvikmynd segir Anton að svo hafi alls ekki verið. 

„Þetta eru fyrst og fremst fagmenn fram í fingurgóma. Björn Hlynur og Nína Dögg unnu mjög náið saman frá byrjun og raunar tókum við tvö skref til baka í upphafi og byrjuðum upp á nýtt með söguna. Ég held líka að þegar leikarar taka þátt í verkefni eins og kvikmynd, sem margir vonandi horfa á og lifir lengi, leggja þeir allt egó til hliðar og vinna saman sem ein heild að góðri útkomu. Að minnsta kosti hef ég yfir engu að kvarta og þáði góð ráð frá þeim.“

Anton, sem lauk nýlega námi við Kvikmyndaskóla Íslands, segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á kvikmyndum. „Ég byrjað snemma að horfa á myndir eins og Terminator og Predator með pabba mínum þegar flestir krakkar voru að horfa á teiknimyndir. Kannski ekki gáfulegt hvað varðar uppeldið en fyrir vikið fékk ég snemma góðan skilning á bíómyndum. Þegar ég var yngri vildi ég verða leikari en um leið og afi minn sagði mér frá því að það væri einhver á bak við myndavélina sem stýrði öllu á bak við tjöldin snerist áhuginn fljótlega að því sviði. Tvítugur ákvað ég að leggja kvikmyndagerð fyrir mig og hef ekki litið um öxl síðan. Enda var ég líka búinn að segja sögur allt mitt líf, í afmælum, keppnisferðalögum og í skólanum. Þannig að sögumaðurinn hefur alltaf blundað í mér.“

Grafir & bein verður frumsýnd 3. október í Smárabíói og Háskólabíói.
Anton er nokkur bjartsýnn á framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar og segir fullt af ungu fólki vera að stíga fram. „Það eru bæði margir ungir leikarar og kvikmyndagerðamenn sem eru að koma fram um þessar mundir. Ég mundi samt ekki kalla það kynslóðaskipti því eldra fólkið í bransanum er enn þá að gera fullt af frábærum hlutum, jafnvel sín bestu verk. En það er vissulega að stíga inn á sviðið ný kynslóð sem ætlar sér að taka þátt í leiknum og hún er nokkuð öflug að mínu mati.“

Þessa dagana leggur Anton lokahönd á eftirvinnslu myndarinnar auk þess sem hann er farinn að undirbúa næstu kvikmynd. „Ég skrifa daglega og er þannig séð „alltaf í vinnunni“. Sjálfur er ég bara ágætlega bjartsýnn í framhaldið þótt kvikmyndagerð á Íslandi sé auðvitað mikið hark, enda erfitt að starfa við skapandi greinar í landi sem telur rúmlega 300.000 manns. En við erum þó enn að framleiða kvikmyndir þótt auðvitað mættu þær alveg vera fleiri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×