Skoðun

Skóli fyrir suma?

Jóhann G. Thorarensen skrifar
Ég vinn sem kennari. Sem slíkur hitti ég nemendur á hverjum degi. Ólíka nemendur sem vinna á ólíkan hátt, eru með ólíkan bakgrunn og vinna mishratt. Sumir eru fljótir að tileinka sér hluti, sumir hægari og sumir strögla. Ekki dytti mér í hug að ætlast til að þeir væru allir eins. Þeir, eins og fólk almennt í samfélaginu, eru ólíkir.

Eitt sinn vorum við með skólakerfi þar sem aðeins hluti nemenda fór í framhaldsnám. Hinir fóru að vinna. Nú erum við með fjölbreyttan hóp nemenda í alls konar námi, bóknámi, verknámi og listnámi. Sumir ljúka námi á skemmri tíma en fjórum árum, sumir ljúka námi á lengri tíma og sumir ljúka meira en einni tegund af námi. Enda eru þetta ólíkir nemendur með ólíkar þarfir. Eins og við öll.

Því finnst mér undarleg sú umræða sem nú er enn komin upp um að setja öllum nemendum þær skorður að ljúka námi sínu á þremur árum. Ef það tekur þá lengri tíma þá sorrí. Hvað er þá orðið um sveigjanleika áfangakerfisins? Kerfi sem gerir nemendum kleift að haga sínum námstíma eftir því hvað þeim hentar sem námsmönnum? Hvað er þá orðið um að hafa fjölbreytt skólakerfi með fjölbreyttu námi fyrir fjölbreyttan nemendahóp?

Helst dettur mér í hug mynd sem ég sá í gagnfræðaskóla á sínum tíma. Þetta var myndin The Wall þar sem nemendur voru hópur með eins grímu, allir eins sem sagt, sem færðust eftir sama færibandi í sömu hakkavél og komu út sem sama kjöt. Kannski er það sá skóli sem þeir vilja sem nú ræða hvað helst um að gera alla framhaldsskóla að þriggja ára skólum?




Skoðun

Sjá meira


×