Skoðun

Íþrótta- og tómstundaþing á Seltjarnarnesi

Lárus B. Lárusson skrifar
Á morgun, laugardaginn 1. mars, boðar íþrótta- og tómstundanefnd Seltjarnarnesbæjar til Íþrótta- og tómstundaþings í Valhúsaskóla. Tilgangurinn er m.a. að auka samvinnu og samstarf bæjarins við íþrótta- og tómstundafélög bæjarins. Þingið verður vettvangur samræðu um íþróttir, tómstundir og almenna heilsueflingu á Seltjarnarnesi.

Seltjarnarnesbær hefur lengi vel haft að leiðarljósi öflugar forvarnir með góðri og breiðri samvinnu við íþrótta- og tómstundafélögin sem starfrækt eru í sveitarfélaginu og annarra aðila sem málið snertir sem og nærsamfélagið. Með slíkri samvinnu má stuðla að áframhaldandi samræmdum aðgerðum innan bæjarfélagsins að bættri lýðheilsu íbúanna. Það er því mikilvægt að Seltjarnarnesbær haldi áfram á sömu braut við að skapa bæjarbúum tækifæri til áframhaldandi bættra lífsgæða með fjölbreyttum möguleikum til hreyfingar, útiveru, iðkunar íþrótta og annarrar afþreyingar eins og tómstundaiðju og félagsstarfs.

Markmiðið með þinginu er að stíga fyrstu skrefin í að ákvarða framtíðarstefnu í íþrótta- og tómstundamálum á Seltjarnarnesi og er stefnu þessari ætlað að treysta þann grunn til að móta framtíðarsýn Seltirninga í íþrótta- og tómstundamálum.

Á þinginu leitumst við eftir að fjölbreyttur hópur fólks, ungir sem aldnir, mæti til að ræða þessi mál og koma sínum hugmyndum á framfæri. Ég vil því hvetja bæjarbúa sem hafa áhuga á málaflokknum sem og aðra hagsmunaaðila sem koma að íþrótta- og tómstundamálum á Seltjarnarnesi að mæta á fyrirhugað þing. Boðið verður upp á morgunkaffi frá kl. 08.30 í Valhúsaskóla og þingið sjálft hefst kl. 09.00 og stendur til kl. 12.00.




Skoðun

Sjá meira


×