Skoðun

Norðlingaölduveita – söguleg þróun og nokkrar staðreyndir

Eyjólfur Árni Rafnsson skrifar

Norðlingaölduveita í Efri-Þjórsá hefur verið til umræðu undanfarið. Deilt er um mörk á friðlýstu svæði umhverfis Þjórsárver en undirrót umræðunnar eru áætlanir um að veita vatni úr Þjórsá austur til Þórisvatns. Nokkurs misskilnings gætir oft um veituna, hvar áformað er að mannvirki rísi og hvaða áhrif þau myndu hafa. Margir halda að ásýnd þeirra og áhrif á verin verði umtalsverð en reyndin er sú að veitustífla og dælustöð eru áformuð um 7,5 km sunnan friðlands Þjórsárvera en ekki í sjálfum Þjórsárverum. Starfsmenn Mannvits hafa lengi unnið að þessu verkefni og því vil ég skýra í örstuttu máli þróun þess.Þjórsárver eru friðlýst

Fyrir hálfri öld voru settar fram hugmyndir um stórt miðlunarlón í Efri- Þjórsá sem hefði fært umtalsverðan hluta Þjórsárvera í kaf. Verin eru gróðurvinjar og mikilvægt varpland heiðargæsa. Stór virkjun var áformuð í Þjórsá með jarðgöngum niður fyrir fossa árinnar. Umhverfisvernd hafði þá minna vægi en nú á tímum en þessar hugmyndir fengu þó ekki framgang. Um 1980 var þess í stað gert samkomulag við Náttúruverndarráð um mun minna lón í Þjórsá sem þó myndi ná inn í neðstu verin í vatnshæð 581 m y.s. Einnig var heimilað að veita austurkvíslum Þjórsár til Þórisvatnsmiðlunar. Þjórsárver voru síðan friðlýst árið 1981 miðað við þessa niðurstöðu og Kvíslaveita byggð í framhaldinu. Lóni í Þjórsá var hins vegar slegið á frest enda virkjun í Efri-Þjórsá ekki á dagskrá á þeim tíma.Árið 1993 ákvað Landsvirkjun að hætta við virkjun í Efri-Þjórsá en í staðinn yrði samkomulagið um lón notað til að veita vatni úr efsta hluta árinnar til Þórisvatns. Veitustífla og dælustöð kæmi við Norðlingaöldu neðan við Þjórsárver og þaðan lægju jarðgöng til austurs. Frekari rannsóknir fóru fram, þá mat á umhverfisáhrifum og loks féll úrskurður umhverfisráðherra árið 2003 um að stíflustæðið yrði nokkru neðar í ánni og hæðin í inntakslóninu 15 metrum lægri en samið var um árið 1981. Veitustíflan yrði 7,5 km sunnan friðlandsmarkanna og inntakslónið vel utan þeirra. Mannvirki yrðu í umhverfi sem er melar og sandar. Inntakslónið yrði aðeins um 3 km², en lón við vatnshæð 581 m y.s. hefði verið um 62 km². Inntakslónið yrði að mestu í farvegi árinnar þar sem ekki eru verðmætar náttúruminjar eða lífríki. Niðurstaða stjórnsýslunnar var að nú hefði framkvæmdin ekki langtímaáhrif inn í friðlandið við 566 m y.s. að sumarlagi. Alþingi samþykkti heimildarlög um Norðlingaölduveitu árið 2003 en umræður um skipulagsmál urðu til þess að fresta málinu.

Norðlingaölduveita og mörk friðlýsingar

Friðlandið fjórfaldað að stærð

Staðsetning veitunnar er sýnd á meðfylgjandi korti og einnig núgildandi mörk friðlýsingar Þjórsárvera og nýleg tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra um rúmlega fjórföldun svæðisins. Þeir sem alfarið eru á móti öllum frekari framkvæmdum í Efri-Þjórsá vilja draga þessi mörk það sunnarlega að með því megi koma í veg fyrir allar hugsanlegar veituframkvæmdir í ánni – ekki til að friða Þjórsárver heldur til að hindra framkvæmdir.Í öðrum áfanga rammaáætlunar var fjallað um þá tilhögun sem stjórnsýslan sættist á 2003. Í faghópum fékk framkvæmdin allgóða einkunn út frá umhverfisáhrifum og háa einkunn fyrir hagkvæmni. Niðurstaðan var þó sú við afgreiðslu Alþingis árið 2013 að veitan var sett í verndarflokk. Þetta varð til þess að upp hófust deilur um pólitísk afskipti af rammaáætlun.Umræðan hefur nýlega beinst að rennsli fossa í Efri-Þjórsá og eyðilegging fossa hefur verið nefnd í því samhengi. Samkvæmt áætlunum um veituna yrði rennsli um fossana í Þjórsá á sumrin að meðaltali um 70% af rennsli án veitunnar og með lítilsháttar stýringu yfir sólarhringinn gæti rennslið verið allt að því óbreytt yfir hádaginn á sumrin. Stofnanir ríkisins töldu þá niðurstöðu ásættanlega við afgreiðsluna fyrir 10 árum. Rennsli um fossinn Dynk yfir hádaginn á sumrin yrði þá vel á annað hundrað rúmmetrar á sekúndu eftir veðurfari sem er tignarlegt fossrennsli og sambærilegt við aðra stóra fossa á Íslandi, til dæmis Goðafoss.Góð arðsemi fyrir þjóðina

Norðlingaölduveita er hagkvæm framkvæmd vegna þess að hún eykur vatnsmagn um Þórisvatn, eitt mikilvægasta miðlunarlón landsins. Neðan þess hafa verið byggðar sex virkjanir sem byggja á vetrarmiðlun frá vatninu og framleiðsla þeirra eykst. Stofnkostnaður veitunnar er áætlaður um 20 milljarðar króna. Afskriftartími er margir áratugir. Aukin orkuframleiðsla er áætluð um 650 milljónir kílóvattstunda á ári (650 GWst/ári). Með verðmarkmiðum Landsvirkjunar yrðu árlegar tekjur vel á fjórða milljarð króna. Þetta eru mikil verðmæti og góð arðsemi fyrir þjóðina sem á Landsvirkjun.Það er mikilvægt að allir átti sig á að í þeirri útfærslu Norðlingaölduveitu, sem nú er til umræðu, hefur verið fallið alfarið frá eldri hugmyndum um stórt lón. Eftir stendur lítið inntakslón sem yrði utan við hin friðlýstu svæði sem jafnframt er nú áformað að verði meira en fjórfölduð að flatarmáli. Allt þetta hlýtur að teljast verulegur ávinningur í umhverfislegu tilliti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.