Haraldur Franklín Magnús féll nú í morgun úr leik á Opna breska áhugamannamótinu í golfi á Norður-Írlandi í átta manna úrslitum. Haraldur tapaði fyrir Skotanum Neil Bradley 7&6.
Haraldur náði sér ekki á strik í dag þrátt fyrir ágæta byrjun. Hann var einn undir pari eftir tvær holur en samt holu undir því Bradley fór frábærlega af stað og fékk fugla á tveimur fyrstu holunum.
Harladur fékk fimm skolla á næstu sjö holum og var fimm holum undir eftir níu holur og ljóst í hvað stefndi.
Bradley náði sex holu forskoti þegar hann fékk fugl á tíundu holunni á sama tíma og Haraldur fékk par.
Bradley gerði út um leikinn á 12. holu, var sjö vinningum yfir þegar sex holur voru eftir.
Þó Haraldur hafi ekki náð sér á strik í dag er árangur hans í mótinu frábær. Hann komst í 16 manna úrslit í fyrra og náði að gera einum betur í ár í þessu einu sterkasta áhugamannamóti Evrópu.

