Erlent

Maliki víkur úr embætti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nouri al-Maliki, fráfarandi forsætisráðherra.
Nouri al-Maliki, fráfarandi forsætisráðherra. Vísir/AFP
Nouri al-Maliki hefur sagt sig frá embætti forsætisráðherra Íraks og heitið eftirmanni sínum, Haider al-Abadi, fullan stuðning sinn.

Þetta kom fram í ríkissjónvarpi Íraks í kvöld.

Al-Abadi er flokksbróðir al Malíkis og báðir eru þeir sjía-múslimar. Dawa-flokkurinn þeirra er stærsta afl sjía-múslima á þingi.



Ákvörðun hans var sögð skref í átt að aukinni einingu landsins en hún kemur einungis örfáum dögum eftir að hann neitaði hatrammlega að víkja úr embætti. Í sjónvarpsávarpi í gær ítrekaði hann ásakanir sínar um að forseti landsins hefði brotið stjórnarskrá landsins með því að fela al-Abadi, varaforseta þingsins, að mynda nýja ríkisstjórn.

„Maliki mun draga mótmæli sín til baka og styðja við bakið á útnefndum forsætisráðherra,“ er haft eftir talsmanni al-Malikis á fréttaveitunni AFP og var þar vísað til lögsóknar sem fráfarandi forsætisráðherra hafði hótað í kjölfar útnefningar Haiders al-Abadis.

Nouri al-Maliki hefur á síðustu misserum einangrast mikið í flokki sínu og talið er að hann hafi misst stuðning fjölda bandamanna sinna úr röðum sjía-múslima.

Hann hefur misst nánast allan stuðning bæði á þingi og meðal leiðtoga annarra landa eftir að vígamenn náðu undir sig stórum hluta landsins. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að neyðarástand vofi yfir flóttafólki, sem hrakist hefur undan sókn vígamannanna í norðanverðu Írak.

Verðandi forsætisráðherra hefur samkvæmt stjórnarskrá landsins 30 daga til að skipa nýja ríkisstjórn frá því að hann tekur við embættinu á mánudag. Fram að því mun Nouri al-Maliki gegna stöðu forsætisráðherra og vera æðsti yfirmaður hersins.


Tengdar fréttir

Frakkar senda Kúrdum vopn

Frakklandsforseti tilkynnti um ákvörðunina í hádeginu og hafa stjórnvöld í Írak þegar veitt samþykki sitt.

Obama ánægður með nýjan forsætisráðherra Íraka

Obama Bandaríkjaforseti segir að skipun Haider al-Abadi í embætti forsætisráðherra í Írak sé skref fram á við sem lofi góðu. Uppgangur herskáu samtakanna sem kalla sig Íslamska ríkið og ráða nú lögum og lofum á stórum landssvæðum í Írak og í Sýrlandi hafa aukið mjög á óvissuna um framtíð Íraks.

Ólíklegt að Jasídarnir verði sóttir

Nú er talið ólíklegt að Bandaríkjamenn setji upp loftbrú til þess að flytja fólk af ættbálki Jasída af Sinjar fjalli í Írak. Þar hefur fólkið hafist við síðustu vikur eftir að það flúði unan hersveitum hins Íslamska ríkis sem ræður nú yfir stórum landsvæðum í Írak.

Bandarískir hermenn komnir til Íraks

Sérsveitarmennirnir eru lentir í Sindjar-fjöllum þar sem þeim er ætlað að aðstoða Jasaída. Einungis þrjú ár eru síðan bandarískar hersveitir yfirgáfu landið.

Bandarískir ráðgjafar komnir til Íraks

Rúmlega 130 bandarískir hernaðarráðgjafar eru nú komnir til Kúrdahéraðanna í Írak. Þetta segir Chuck Hagel varnarmálaráðherra landsins. Hann ítrekar þó að hermennirnir taki ekki þátt í bardögum heldur séu þeir að meta ástandið og þörfina á neyðaraðstoð en samtökin sem kalla sig Íslamska ríkið ráða yfir stórum hlutum svæðisins og eru talin hafa ráðist hatrammlega að minnihlutahópum af annarri trú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×