Viðskipti innlent

Ákæru á hendur Hannesi Smárasyni vísað frá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hannes Smárason.
Hannes Smárason. Vísir/Heiða
Máli sérstaks saksóknara á hendur Hannesi Smárasyni var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hannes var í nóvember ákærður fyrir að hafa dregið að sér tæplega þrjá milljarða króna af fjármunum FL Group í apríl árið 2005 þegar hann gegndi stjórnarformmensku hjá FL Group.

Hannes var ekki viðstaddur þegar dómari kvað upp úrskurð sinn klukkan 9:30 í morgun. Ástæða frávísunarinnar er sú að dómari mat að lýsing á háttsemi Hannesar í ákærunni væri óskýr.

Finnur Þór Vilhjálmsson, fulltrúi sérstaks saksóknara, staðfesti úrskurðinn í samtali við Vísi. Hann sagði embættið hafa til föstudags til að meta hvort úrskurður héraðsdóms verði kærður. Þeir myndu nú setjast yfir málið.

Finnur vildi ekki gefa neitt uppi um líkur á því að úrskurðurinn yrði kærður. Það verður þó að teljast líklegt.

Gísli Hall, verjandi Hannesar, segir ríkisvaldið hljóta að skoða það rækilega hvort ástæða sé til þess að kæra úrskurð héraðsdóms.

Þetta er annað málið á skömmum tíma sem héraðsdómur vísar frá máli sem embætti Sérstaks saksóknara höfðar, vegna formsgalla í ákæru. Embætti Sérstaks saksóknara kærði úrskurð Hérðasdóms Reykjaness í Aserta-málinu svokallaða á dögunum.




Tengdar fréttir

Verjandi Hannesar segir sannanir skorta

Gísli Guðni Hall, verjandi Hannesar Smárasonar, segir að skortur sé á sönnunum í ákæru sérstaks saksóknara gegn skjólstæðingi sínum. Hann sakar embættið um að leka gögnum til fjölmiðla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×