Viðskipti innlent

Búsetugjöld íbúða Búseta í Reykjavík hækka ekki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Búseti í Reykjavík og Búseti á Norðurlandi eru óskyld félög með mismunandi samþykktir og reglur þrátt fyrir að starfa samkvæmt sömu lögum um húsnæðissamvinnufélög.
Búseti í Reykjavík og Búseti á Norðurlandi eru óskyld félög með mismunandi samþykktir og reglur þrátt fyrir að starfa samkvæmt sömu lögum um húsnæðissamvinnufélög. Vísir/Vilhelm
Ekki stendur til að hækka búsetugjöld íbúða Búseta í Reykjavík. Búseti í Reykjavík og Búseti á Norðurlandi eru óskyld félög með mismunandi samþykktir og reglur þrátt fyrir að starfa samkvæmt sömu lögum um húsnæðissamvinnufélög. Búseti í Reykjavík stendur vel fjárhagslega og eigið fé samstæðu er 21% samkvæmt sex mánaða ársreikningi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Búseta í Reykjavík.

Tilefni tilkynningarinnar er frétt í Fréttablaðinu í dag þar sem fram kemur að Búseti á Norðurlandi þurfi að grípa til þess að hækka búsetugjöld. Hafi það valdið misskilningi hjá einhverjum hjá Búseta í Reykjavík.

„Það er miður að Búseti á Norðurlandi þurfi að grípa til þess að hækka búsetugjöld en húsnæðissamvinnufélögin fengu ekki skuldaleiðréttingu, líkt og önnur eignarform. Lauslega má áætla að skuldaleiðrétting fyrir Búseta í Reykjavík hefði þýtt um 1.100 milljóna króna lækkun skulda, og þar með lækkun greiðslubyrði íbúa.  Það er leitt að ekki hafi verið tekið tillit til þessa hóps í samfélaginu sem einnig varð fyrir margumræddum forsendubresti enda verðtryggð lán uppistaða allra fasteignalána á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Ætla megi að þegar tekinn sé saman heildarfjöldi allra íbúa í búseturéttarfélögum, leigufélögum sbr. Félagsstofnun stúdenta og félagslegar íbúðir sveitarfélaga, öll öldrunarfélögin með mismunandi lán og samningsform auk annarra fasteignafélaga, þá hafi um fjórðungur íbúa þessa lands verið sniðgenginn.


Tengdar fréttir

Hækka fjármagnslið félagslegra íbúða um 13%

Búseti á Akureyri hefur ákveðið að leiga á félagslegum íbúðum hækki um 13 prósent á næsta ári. Er sú hækkun langt umfram verðbólgu. Fjárhagur Búseta kallaði á endurfjármögnun og hækkun leigutekna. Kemur sér illa fyrir tekjulága íbúa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×