Körfubolti

Besti leikmaður Keflavíkur á leið til Ísrael

Tómas Þór Þórðarson skrifar
William Thomas Graves hinn fjórði í leik gegn Þór í Þorlákshöfn.
William Thomas Graves hinn fjórði í leik gegn Þór í Þorlákshöfn. vísir/davíð þór

Bandaríkjamaðurinn William Thomas Graves hinn fjórði, besti leikmaður Keflavíkur í Dominos-deild karla á tímabilinu, hefur mögulega spilað sinn síðasta leik fyrir liðið.

Hann er á leið til Maccabi Haifa í Ísrael sem er í tíunda sæti í úrvalsdeildinni þar í landi. Haifa fór alla leið í úrslitarimmuna í ísraelsku deildinni í vor.

„Þetta er ekki alveg komið á hreint en ég tel ansi líklegt að þetta gangi í gegn því ísraelska liðið er búið að biðja um allar upplýsingar,“ segir Sævar Sævarsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar Kefalvíkur, við Vísi.

Graves er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa Keflavík sé lið tilbúið að greiða hann út.

„Það er þessi upphæð sem Maccabi er að virkja. Hún gildir frá 15. desember til 15. janúar og þeir eru búnir að biðja um upplýsingar um hvert eigi að senda greiðsluna,“ segir Sævar.

Líklegt er að Maccabi gangi frá málum fyrir föstudaginn þannig Graves, sem er einnig nokkuð öflugur rappari, geti ekki verið með Keflavík gegn Hauka.

„Það er bara óljóst á þessari stundu en mér finnst það líklegra. Þetta bara gerðist í gær,“ segir Sævar, sem vill ekki gefa upp hversu há upphæðin er.

„Þetta er alveg peningur sem hjálpar okkur, en kannski ekki knattspyrnuliði. Þetta hjálpar til við reksturinn en verður ekkert til þess að leikmenn Keflavíkur verði komnir með gulltennur eftir áramót,“ segir varaformaðurinn og hlær.

Graves er stiga- og frákastahæstur hjá Keflavík á tímabilinu með 22,9 stig og 8 fráköst að meðaltali í leik. Besti leikur hans var gegn ÍR þar sem hann skoraði 41 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.