Körfubolti

Keflvíkingar veðja á rappara sem var rekinn úr skóla Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
William Graves tekur upp á ýmsu.
William Graves tekur upp á ýmsu. Vísir/Getty
Bandaríkjamaðurinn William Graves mun spila með karlaliði Keflavíkur í Dominso-deildinni í körfubolta í vetur en hann lék á sínum tíma með hinum virta háskóla University of North Carolina. Keflvíkingar segja frá því á heimasíðu sinni að Graves sé kominn á klakkann.

Keflavík hafði áður samið við Titus Rubles en honum var synjað um landvistarleyfi hér á landi þar sem hann hafði verið handtekinn með kannabisefni í vestanhafs.

William Graves lenti líka í vandræðum í desember síðastliðnum þegar hann var tekinn með eiturlyf í húsi í eigi UNC-þjálfarans Roy Williams. Graves var þá hluti af þjálfarateymi North Carolina háskóla á meðan hann kláraði háskólaprófið sitt. Hann leigði húsið af aðalþjálfaranum og aðstoðaði hann við leikgreiningu.

Norður-Karólínu háskólinn er einn sá allra virtasti í Bandaríkjunum en þekktasti leikmaður skólaliðsins er án vafa Michael Jordan sem útskrifaðist vorið 1984 eftir að hafa unnið einn háskólatitil með skólaliðinu.

Roy Williams hafði áður vísað William Graves úr skólaliðinu árið 2010 fyrir að virða ekki reglur liðsins. Graves var með 9,8 stig, 4,6 fráköst og 2,0 þriggja stiga körfur í leik á síðasta ári sínu með UNC. Það er hægt að sjá myndband hér fyrir neðan með frábærri frammistöðu Graves með UNC í leik á móti Georgia Tech.

Þar er ljóst að um hörku leikmann er að ræða og nú vona Keflvíkingar að vandræðin haldi ekki áfram að elta á Íslandi.

Síðan Graves var rekinn úr skólaliði Norður-Karólínu háskólans hefur hann spilað sem atvinnumaður í Japan og Argentínu. Graves er tæplega tveggja metrar á hæð og um 110 kíló.

Graves kann ýmislegt fyrir sér fyrir utan völlinn og þeir sem vilja kynnast honum sem rapparnum SmoovWillyG geta smellt á linkinn hér á undan.

William Graves er flottur leikmaður.Vísir/Getty



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×