Viðskipti innlent

Sigurjón Árnason: „Alröng niðurstaða“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
„Í mínum huga er þetta alröng niðurstaða og mér finnst eins og það sé verið að dæma fyrir eitthvað sem ekki var ákært fyrir,“ segir Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans. Sigurjón var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna.  Þá voru tveir undirmenn hans, Ívar Guðjónsson og Júlíus Steinar Heiðarsson, dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna.

Sakfelldir fyrir 5 viðskiptadaga af 228

Fjórmenningunum var gefið að sök að hafa handstýrt verði hlutabréfa í aðdraganda hrunsins á tímabilinu 1.nóvember 2007 til 3.október 2008. Samtals 228 daga. Sigurjón, Ívar og Júlíus voru í morgun sakfelldir fyrir tímabilið 29.september til 3.október 2008. Samtals fimm daga. 

„Það að það sé búið að velja einhverja örfáa daga rétt síðustu dagana fyrir hrun finnst mér ekki vera í samræmi við það sem ákært var fyrir. Ef maður hefði vitað það þá hefði maður átt að verjast því, því þá hefði maður auðvitað gert það. Ákæran var einfaldlega of óljós til að hægt hafi verið að verjast henni. En annars breytir það því ekki að í mínum huga voru öll þessi viðskipti 100 prósent eðlileg og ekkert rangt við þau á nokkurn hátt,“ segir Sigurjón. 

Í niðurstöðu dómsins segir að starfa þeirra vegna hafi þeir borið ríkar skyldur gagnvart aðilum markaðarins, einstaklingum sem lögaðilum, sem áttu að geta treyst því að verð og eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum lyti eðlilegum markaðslögmálum. Brot þeirra hafi verið stórfellt og varið dögum saman ásamt því að varða fjárhagsmuni fjölmargra fjárfesta.

Saksóknari segir niðurstöðuna koma á óvart

Málið sem um ræðir er eitt það stærsta sem sérstakur saksóknari hefur haft til rannsóknar í kjölfar efnahagshrunsins.  Málinu var skipt upp í þrjá hluta vegna umfangs þess og hefur Sigurjón verið sýknaður í tvígang. Þeim málum hefur ríkissaksóknari áfrýjað til Hæstaréttar.

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði niðurstöðuna hafa komið á óvart.  „Þetta er vægari refsing en við áttum von á. Það virðist hafa verið dæmt fyrir styttra tímabil heldur en ákært var fyrir. En við þurfum að fara yfir þetta og meta það svo í framhaldinu,“ sagði Björn.

Uppfært klukkan 16:17

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, staðfestir í samtali við fréttastofu að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

Með hæstu málsvarnarlaunum sem hafa verið dæmd

Ríkissjóður þarf að greiða rúmlega 24 milljónir króna í málsvarnarlaun tveggja verjenda samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þar sem Sigurjón Þ. Árnason og Eín Sigfúsdóttir voru sýknuð af ákæru um umboðssvik.

Sigurjón dæmdur í tólf mánaða fangelsi

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir,

Sigurjón og Elín sýknuð af ákæru um umboðssvik

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Elínu Sigfúsdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik.

Ósáttur við að vera kallaður til sem vitni

Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, baðst undan því að bera vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í markaðsmisknotkunarmáli bankans.

Mál Sigurjóns og Elínar fyrir Hæstarétt

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. október yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni og Elínu Sigfúsdóttur.

Þvertók fyrir að hafa haft áhrif á hlutabréfaverð

Björgólfur Thor Björgólfsson, stærsti eigandi Landsbankans fyrir hrun, kvaðst fyrir Héraðsdómi í dag hafa rætt hvernig ætti að bregðast við óveðri en ekki hvernig ætti að hafa áhrif á veðrið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×