Erlent

Heitasta tímabil á jörðinni í 1.400 ár

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Vísir/Getty
Draga verður skipulega úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og olíu og gass og helst hætta alfarið notkun þess fyrir næstu aldamót ef það á að takast að afstýra varanlegum breytingum á loftslagi heimsins. Þetta er mat vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og kemur fram í nýrri skýrslu nefndarinnar.

Niðurstöður skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC - Intergovernmental Panel on Climate Change, voru kynntar á fundi í Kaupmannahöfn í morgun en í skýrslunni kemur fram að heimurinn standi frammi fyrir „alvarlegum, langvarandi og óafturkræfum“ áhrifum á loftslag án skilvirkra aðgerða til að draga úr útblæstri kolefnis með notkun jarðefnaeldsneytis

Áhrif loftslagsbreytinga sjást víða en birtingarmynd þeirra er meðal í súrnun sjávar, bráðnun íshellunnar á Norðurskautinu og uppskerubresti í mörgum heimsálfum.

Það er niðurstaða höfunda skýrslunnar að notkun jarðefnaeldsneytis án geymslu og bindingu kolefnis verði að líða alfarið undir lok um næstu aldamót í síðasta lagi ef það á takast að vinna gegn óafturkræfum og varanlegum áhrifum á loftslag heimsins.

Magn kolefnis í andrúmsloftinu hefur ekki verið hærra í 800 þúsund ár. Þá var tímabilið 1983-2014 heitasta tímabil á jörðinni í 1.400 ár, að því er fram kemur í skýrslunni.

Á vef BBC er haft eftir Arthur Petersen, prófessor við University College í Lundúnum og nefndarmanni í hollensku sendinefndinni á fundinum í Kaupmannahöfn að tími jarðefnaeldsneytisins sé liðinn. Það sé pólitísk ákvörðun hversu mikla áhættu eigi að taka með loftslagið en algjörlega nauðsynlegt sé að draga úr kolefnisútblæstri til að afstýra stigmagnandi hækkun hitastigs á jörðinni.

Vægi endurnýjanlegra orkugjafa verður að aukast og er það mat höfunda skýrslunnar að hlutfall þeirra af orkunotkun heimsins verði helst að fara upp í 80 prósent árið 2050 en þetta hlutfall er 30 prósent í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×