Viðskipti innlent

Skúli á CNBC: Rukkum fyrir það sem þú notar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Ef þú vilt taka farangur með þér, tvær töskur eða velja sæti þá rukkum við fyrri það. En við rukkum einfaldlega fyrir það sem þú notar. Ef þú vilt bara sæti til Boston færðu lægsta verðið hjá WOW air,“ segir Skúli Mogensen.
"Ef þú vilt taka farangur með þér, tvær töskur eða velja sæti þá rukkum við fyrri það. En við rukkum einfaldlega fyrir það sem þú notar. Ef þú vilt bara sæti til Boston færðu lægsta verðið hjá WOW air,“ segir Skúli Mogensen.
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, segir flugfélagið einfaldlega rukka fyrir það sem það notar. Þannig svarar hann gagnrýni þess að lággjaldaflugfélög bjóði upp á frábært verð sem rjúki svo upp þegar á bókunarferlið líður.

Skúli sat fyrir svörum á CNBC í morgun. Var hann spurður út í hvort raunhæft væri að flugfélagið gæti boðið upp á töluvert lægra verð en áður hefði þekkst í flugum yfir Atlantshafið. Stærri aðilar hefðu reynt en ekki tekist.

„Það sem ég get sagt er að per sæti verðum við stöðugt með töluvert lægra verð en samkeppnisaðilinn, a.m.k. miðað við hvernig verðið er í dag,“ segir Skúli. Hann fagnaði því að aðrir aðilar treystu sér ekki í að bjóða upp á sambærileg verð.

WOW air auglýsir verð fyrir flugsætið. Við bætast greiðslur fyrir farangur, handfarangur og sætisval. Var hann spurður út í viðskiptalíkanið og því líkt við að öllu góðu væri lofað með lágum verðmiða en svo væri fólkið stungið í bakið þegar kæmi að aukagreiðslum.

„Ég held að það sé ekkert í viðskiptalíkaninu sem eigi að koma á óvart. Við erum að ég held fyrsta flugfélagið til að bjóða upp á lággjalda flug yfir Atlantshafið,“ sagði Skúli.

„Ef þú vilt taka farangur með þér, tvær töskur eða velja sæti þá rukkum við fyrri það. En við rukkum einfaldlega fyrir það sem þú notar. Ef þú vilt bara sæti til Boston færðu lægsta verðið hjá WOW air.“

Aðspurður hver væri lykillinn að því að WOW teldi sig geta farið í þessa samkeppni svaraði Skúli því til að mestu munaði um staðsetningu Íslands. Þannig gæti vél WOW flogið fram og til baka bæði til Lundúna og svo til Bandaríkjanna á innan við 24 tímum.

Við bætist að Airbus 321 vélarnar taki 200 farþega en ekki 300 svo auðveldara væri að fylla þær. Eldsneytiskostnaður væri einnig minni en hjá stærri vélum.

Viðtalið við Skúla má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Ferðaplön þúsunda farþega gætu farið úr skorðum

EFTA dómstóllinn hefur mál WOW air og Icelandair vegna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli til skoðunar. Niðurstaða dómsins gæti haft mikil á ferðaáætlanir þeirra sem hyggjast ferðast næsta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×