Viðskipti innlent

Ekki næg arðsemi í rekstri Landsbankans

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Landsbankinn skilar of lítilli arðsemi og of stór hluti hagnaðarins er vegna matsliða og óreglulegra liða, að sögn bankastjórans Steinþórs Pálssonar. Bankinn hefur ráðið alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Co. til að hagræða í rekstrinum.

Landsbankinn kynnti í morgun uppgjör sitt vegna fyrstu 9 mánaða ársins. Bankinn er að nær fullu í eigu skattgreiðenda og eini ríkisbankinn á markaði.

Hagnaður á fyrstu níu mánuðum 2014 nam 20 milljörðum króna eftir skatta. Innlán frá viðskiptavinum hafa vaxið um 9% á árinu og útlán um 6%.

Eigið fé bankans er nú 241 milljarður króna og stendur í stað miðað við árslok 2013 þrátt fyrir að Landsbankinn hafi greitt eigendum sínum, aðallega íslenska ríkinu, tæpa 20 milljarða króna í arð á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Eiginfjárhlutfall bankans er nú 27,1% og arðsemi eigin fjár eftir skatta var 11,4% á tímabilinu.

Hversu stór hluti hagnaðarins er vegna matsliða eins og vegna sölu á eignarhlutum í aflagðri starfsemi og endurmats á lánasöfnum? „Það er mjög stór hluti. Af tekjum er það um 30-40 prósent,“ segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.

Virðisaukning útlána of stór hluti hagnaðar

Fram kom í kynningu Steinþórs á upppgjörinu að þegar teknir væru út óreglulegir liðir þá væri arðsemin of lítil. Of stór hluti hagnaðar væri vegna aukningar á verðmæti útlána. Eðlilegra væri að útlánaáhætta ylli kostnaði á reikstrarreikningi bankans en ekki tekjum.

„Bankarnir hafa og Landsbankinn hefur verið að ná fram hagnaði af hlutabréfum og skuldabréfum hér áður og nú af útlánum. Þegar þessu er sleppt þá er hagnaðurinn mun minni og við þurfum að huga að því hvernig er hægt að mæta því til framtíðar,“ segir Steinþór.

Bankinn hefur ráðið teymi frá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey og Company til að finna leiðir til að hagræða í rekstrinum. Vinnan miðar að því að bæta þjónustu við viðskiptavini, einfalda vinnuferla og draga úr kostnaði. Stefnt er að því að klára þá vinnu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×