Viðskipti innlent

Hafa fengið vísbendingar um ólögmætt samráð fyrirtækjanna

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva

Vegna umfjöllunar í Kastljósi í gærkvöldi og í tilefni af fyrirspurnum fjölmiðla í dag um rannsókn á hugsanlegum brotum Eimskipafélags Íslands hf. og Samskipa hf. og tengdum félögum telur Samkeppniseftirlitið viðeigandi að senda frá sér yfirlýsingu.



Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskipa til sérstaks saksóknara fyrir stórfelld brot á samkeppnislögum, en RÚV greindi frá málinu í gær.



„Eins og Samkeppniseftirlitið hefur áður staðfest opinberlega rannsakar það nú hvort vísbendingar um ólögmætt samráð fyrirtækjanna og hugsanlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu eigi við rök að styðjast. Hófst rannsóknin með húsleit hjá félögunum í september á síðasta ári og var frekari gagna aflað í júní síðastliðnum.“



Fram kemur í yfirlýsingu eftirlitsins að rannsókn Samkeppniseftirlitsins lúti að þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Rannsóknin standi enn yfir.



„Hins vegar er það lögbundið hlutverk embættis sérstaks saksóknari að rannsaka hugsanleg brot stjórnenda eða starfsmanna fyrirtækja á samkeppnislögum, að undangenginni kæru frá Samkeppniseftirlitinu. Hefur slíkri kæru verið beint til embættis sérstaks saksóknara.“



Samkeppniseftirlitið mun ekki verða við beiðnum fjölmiðla um aðgang að gögnum málsins.



„Jafnframt er eftirlitið ekki reiðubúið að staðfesta þá umfjöllun sem fram kom í Kastljósi í gærkvöldi. Þá skal sérstaklega tekið fram að rannsókn málsins er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar. Rannsókninni miðar vel en mikil vinna er óunnin við greiningu gagna og vísbendinga.“


Tengdar fréttir

Kærð fyrir samkeppnislagabrot

Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskipa til sérstaks saksóknara fyrir stórfelld brot á samkeppnislögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×