Innlent

50 prósent opinberra starfsmanna hættir í vinnu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir.
Guðlaug Kristjánsdóttir. vísir/pjetur
Starfsaldur fimmtíu prósent ungra háskólamenntaðra opinberra starfsmanna er eitt til fjögur ár og erfiðlega gengur að halda þeim í vinnu. Mikilvægt er að finna lausn á þessu vandamáli. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Guðlaugar Kristjánsdóttur, formanns BHM, í Sprengisandi í morgun og vísar hún þar með í frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem hann hyggst leggja fram í vetur.

„Það virðist ekkert sérstaklega erfitt að losa sig við fólk. Það er jafnvel erfitt að halda í það. Held það sé stórt vandamál og hvernig þú gerir þennan vinnustað aðlaðandi, meira heldur en hann er. Þetta er brjálæðislega spennandi vinnustaður, íslenska ríkið, en það er þessi neikvæða umræða um að fólki sem þar vinnur að það þurfi að vera auðveldara að losa sig við það, þegar raunin er sú að sannarlega færðu fólk sem ræður sig en það gengur mjög erfiðlega að halda því til lengri tíma, og þá er ég að tala um yngra fólkið,“ sagði Guðlaug.

Guðlaugur Þór ætlar að leggja fram frumvarp á Alþingi í vetur um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hann segir mikilvægt sé að gera lög um opinbera starfsmenn líkari þeim lögum sem gilda um starfsfólk á almenna markaðnum til þess að breytingar á kerfinu verði auðveldari, þar með taldar breytingar á starfsmannafjölda. Vigdís Hauksdóttir segist lengi hafa verið talsmaður þess að lögunum um opinbera starfsmenn verði breytt svo það verði auðveldara fyrir opinberar stofnanir að segja upp starfsfólki.

„Þegar við tölum um að starfsemi hins opinbera færist meira til almenna markaðarins, þá spyr ég viljum við hafa það þannig hjá hinu opinbera að það geti bara verið geðþótta ákvörðun næsta yfirmanns sem ráði því hvort viðkomandi gengur út með föggurnar sínar samdægurs eða ekki? Það er það sem þessi starfsmannalög snúast um. Það er nákvæmlega ekkert í þeim sem kemur í veg fyrir það að  við getum aukið framleiðni þar sem þar á við,“ sagði Guðlaug.

Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×