Viðskipti innlent

Um einföldun á verðskrá er að ræða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Farþegar sem keyptu miða fyrir 1. október fá upprunalegu heimildina og þurfa því ekki að breyta neinu í bókun sinni.
Farþegar sem keyptu miða fyrir 1. október fá upprunalegu heimildina og þurfa því ekki að breyta neinu í bókun sinni. Vísir/Pjetur
Lággjaldaflugfélagið WOW air hefur sent frá sér tilkynningu vegna frétta sem birtust í gær um að töskugjöld félagsins hefðu hækkað um nýliðin mánaðamót.

Í tilkynningu segir að um einföldun á verðskrá sé að ræða og að lagt sé upp með að farþegar greiði aðeins fyrir þá þjónustu sem þeir kjósa að nota hverju sinni. Kemur fram að mörg önnur lággjaldaflugfélög séu með sama rekstrarmódel og hafi ýmist stærðar- eða þyngdartakmörk á handfarangri.

Áfram verður ókeypis að hafa með sér handfarangur sem er undir 5 kílóum en ef að farþegi kýs þyngri handfarangur er hægt að greiða fyrir 7 aukakíló. Fyrir flug styttri en 4 tímar kostar aukahandfarangursheimildi 1.999 kr. en ef flugið er lengra en 4 tímar kostar heimildin 2.999 kr.

Þetta á þó aðeins við ef bókað er á netinu en sá sem greiðir fyrir handfarangurinn á flugvellinum borgar 3.999 til 8.399 krónur fyrir að taka töskuna með í flugið.

Innritaðar töskur munu svo kosta 3.990 kr. fyrir flug sem eru styttri en 4 tímar en fyrir lengri flug kostar taskan 4.990 kr. Sama verð er greitt fyrir tösku númer tvö og þrjú en hingað til hefur kostað meira að innrita þær.

Farþegar sem keyptu miða fyrir 1. október fá upprunalegu heimild og geta tekið með sér handfarangur allt að 10 kíló án þess að greiða aukalega fyrir það. Þeir þurfa því ekki að breyta neinu í bókun sinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×