Viðskipti innlent

Gengi krónu þyrfti að lækka ef ekki er lengt í Landsbankabréfi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Seðlabankinn segir að það gæti þurft að fella gengi krónunnar um 8 prósent og það er högg sem almenningur tekur, ef ekki tekst að lengja í skuldabréfum Landsbankans við slitabú þess gamla.

Ástæðan er sú að skapa þarf undirliggjandi afgang í gjaldeyri til að mæta afborgunum.

Skuldabréf Landsbankans við slitabú þess gamla, LBI, hljóða upp á jafnvirði 226 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Eins og komið hefur ítrekað fram í fréttum náðust samningar á afborgunum bréfsins þannig að síðasti gjalddagi skuldabréfanna er árið 2026 í stað ársins 2018.

Samningarnir eru háðir því að LBI fái undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Samningarnir eru hins vegar umdeildir í íslensku samfélagi. Þannig eru skiptar skoðanir hjá stjórnvöldum hvort það eigi yfirleitt að veita slitabúi Landsbankans undanþágu frá höftum. Þessar efasemdir koma t.d  fram hjá stýrihópi um afnám fjármagnshafta.

Seðlabankinn er að undirbúa svar til LBI vegna undanþágunnar en samkvæmt lögum um gjaldeyrismál þurfa bæði Seðlabankinn og fjármála- og efnahagsráðherra að veita samþykki fyrir undanþágu af þessu tagi.

Nokkrir hafa stigið fram og lýst því yfir að hafna beri þessum samningi til dæmis Heiðar Guðjónsson hagfræðingur.

Gengi krónu þyrfti að lækka

Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans sem kom út í dag segir orðrétt: „Verði ekki af lengingu skuldabréfa Landsbankans þyrfti, að öðrum forsendum óbreyttum, innlend eftirspurn að dragast saman og gengi krónunnar að lækka til að þjóðarbúið geti skapað meiri gjaldeyristekjur til að standa undir greiðslum af skuldabréfunum.“

Greining með þjóðhagslíkani Seðlabankans bendir til að gengið gæti þurft að lækka tímabundið um 8%.

Mun ekki almenningur á endanum borga fyrir þessa gengisfellingu? „Þetta er sú mynd sem við höfum dregið upp. Það er ákveðinn munur á væntum viðskiptaafgangi og því sem við þurfum að borga í erlendar skuldir. Til þess að loka þessum mun, samvæmt þessu mati sem grundvallast á líkani Seðlabankans, þá mun gengið þurfa að lækka um allt að 8 prósent til skamms tíma og einkaneysla minnka og verðbólga mun aukast. Á hinn bóginn hefur LBI lagt samkomulag á borðið sem er raunhæft hvað varðar endurfjármögnun Landsbankans sem þýðir að þetta högg myndi ekki lengur koma fram, en að sama skapi gæti ríkið eða Seðlabankinn lánað þessa fjármuni til lengri tíma og komið í veg fyrir að þetta högg komi fram,“ segir Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum.

Sigríður segir að ef það verði lengt í bréfunum sé mjög ólíklegt að það komi fram sömu áhrifin þar sem líkurnar á endurfjármögnun án aðkomu ríkisvaldsins aukist verulega.    






Fleiri fréttir

Sjá meira


×