Innlent

Grunaður um að hafa neytt átta ára dreng til munnmaka

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Atvikið gerðist á Akureyri.
Atvikið gerðist á Akureyri.
Maðurinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í annað sinn, grunaður um að hafa tælt tvo drengi heim til sín og rassskellt þá, er einnig sakaður um að hafa sett kynfæri sín upp í munn annars drengsins. Þetta kemur fram í staðfestingu Hæstaréttar á niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands í síðustu viku um að lengja gæsluvarðhaldið til 19. september. Maðurinn, sem á yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi, hafði áfrýjað gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa rassskellt drengina tvo en ber við minnisleysi þegar hann er spurður um hvort hann hafi gert eitthvað fleira við drengina tvo.

Voru í boltaleik fyrir utan heimili hans

Manninum er gefið að sök að hafa tælt tvo átta ára drengi inn í íbúð sína, en þeir voru í boltaleik fyrir utan heimili hans. Að sögn drengjanna kom maðurinn út og sakaði þá um að hafa sparkað bolta í bíl sinn. Hann mun hafa hótað drengjunum að hringja á lögregluna nema að þeir kæmu með honum inn og ræddu málið.

Þegar inn var komið segir annar drengjanna að maðurinn hafi girt niður um þá. Hinn drengurinn segir að maðurinn hafi skipað þeim að taka sjálfir buxurnar niður um sig. Þá mun hann hafa skipað drengjunum að rassskella hvor annan. Hann mun einnig hafa skipað drengjunum að slá hvorn annan fastar þar sem honum fannst höggin vera of létt. Maðurinn mun síðan hafa rasskellt þá sjálfur og slegið þá ítrekað með flötum lófa að því er fram kemur í vitnisburði drengjanna.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Norðurlands segir svo orðrétt um framhaldið:

„Sýslumaður segir að um síðari atburði sé annar drengurinn hinum mun skýrari í framburði sínum og segist hafa séð mjög skýrt að sakborningur hafi, eftir rassskellingarnar, sett kynfæri sín í munn hins drengsins. Sami drengur segi að því næst hafi sakborningur borið olíu eða krem á sitjanda drengsins sjálfs og farið með fingur þar inn og síðar með kynfæri sín. Sýslumaður segir að hinn drengurinn beri að hann muni ekki hvað gerzt hafi eftir rassskellingarnar.“

Voru með áverka

Læknisskoðun leiddi í ljós að báðir drengirnir voru með áverka eftir rassskelli og kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að annar drengurinn hafi „einnig haft aðra áverka sem samrýmist sögu hans. Sá drengur staðhæfi einnig að drengirnir hafi ítrekað spurt sakborning hvort þeir mættu fara heim en hann sagt þeim að þegja.“

Sýslumaður telur, miðað við frásagnir drengjanna og foreldra þeirra, að þeir hafi verið í um hálfa klukkustund inni hjá manninum. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa rasskellt þá en ber við minnisleysi þegar hann er spurður um aðra hluti sem gerst hafi í íbúðinni. Hann segir þó drengina hafa fylgt sér í íbúðina sjálfviljugir.

Í úrskurði Hæstaréttar segir orðrétt:

„Sýslumaður segir að með vísan til framanritaðs leiki mjög sterkur grunur á að sakborningur hafi framið þessi brot gegn drengjunum og að þau séu svo svívirðileg í almannaaugum að valda myndi óróleika ef hann yrði látinn laus.“

Mótmælti gæsluvarðhaldi

„Sakborningur segir að ósannað sé að sterkur grunur leiki á að hann hafi framið brot sem uppfylli skilyrði um tíu ára refsiramma. Einn eða tveir rassskellir kunni að varða við hegningarlög en geti alls ekki náð þeim refsiramma. Sakborningur neiti að hafa sett kynfæri sín í munn annars drengsins og standi þar orð gegn orði. Þá kveðst hann minna á fyrirmæli stjórnarskrárinnar um að hver maður skuli talinn saklaus hafi sekt hans ekki verið sönnuð fyrir dómi,“ segir orðrétt í gæsluvarðhaldsúrskurðinum.

Maðurinn mótmælti einnig gæsluvarðhaldsúrskurðinum á þeim grundvelli að varðhald sé ekki nauðsynlegt þar sem ekki sé um almannahagsmuni að ræða. Segir hann lögreglu og dómstóla ekki mega láta opinbera umræðu hafa áhrif á ákvarðanir sínar. Hann bendir einnig á að hann sé með hreint sakavottorð.

Dómari féllst ekki á kröfur mannsins og staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn. Rökstuðning Hæstaréttar má lesa hér að neðan en þar kemur fram að sterkur grunur leiki á því að þann tíma sem drengirnir hafi verið í íbúð mannsins hafi þeir verið á valdi hans.

„Þegar á framanritað er horft verður að telja að sterkur grunur leiki á því að sakborningur hafi fengið drengina inn í íbúð sína undir hótun um að ella yrði lögregla kölluð á staðinn. Undir þeirri hótun hafi drengirnir fylgt honum í íbúðina. Í ljósi framburðar drengjanna beggja verður einnig að telja sterkan grun leika á því að sakborningur hafi bæði látið þá rassskella hvorn annan og sjálfur rassskellt þá. Verður að telja sterkan grun leika á því að þann tíma sem drengirnir voru í íbúð sakbornings hafi þeir verið á valdi hans.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið er sterkur grunur uppi um að sakborningur hafi með hótun fengið drengina inn í íbúð sína þar sem hann hafi haft þá á sínu valdi um stund. Jafnvel þótt slíkt ástand vari tiltölulega skamma stund kann slík háttsemi að verða heimfærð undir 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og má þar vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 54/2014. Þegar á allt framanritað er horft verður að líta svo á að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað geti tíu ára fangelsi. Þegar horft er til málsatvika allra og aðstæðna þykir einnig verða að fallast á með sýslumanni að áframhaldandi gæzluvarðhald sakbornings sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Þykja uppfyllt öll skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að verða við kröfu sýslumanns og verður á hana fallizt svo sem í úrskurðarorði greinir, en ekki þykja efni til að marka gæzluvarðhaldinu skemmri tíma.“


Tengdar fréttir

Foreldrar þekktu til brotamanns

"Svona brot gegn börnum eru samt alltaf litin alvarlegum augum,“ segir lögreglufulltrúi á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×