Viðskipti innlent

Brýnt að marka stefnu varðandi fjölda ferðamanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Grímur Sæmundsen segir eitt stærsta verkefni ferðaþjónustunnar á Íslandi að fólk geti upplifað víðáttu, kyrrð og fámenni
Grímur Sæmundsen segir eitt stærsta verkefni ferðaþjónustunnar á Íslandi að fólk geti upplifað víðáttu, kyrrð og fámenni Vísir/GVA
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir brýnt að stjórnvöld og ferðaþjónustan svari þeirri spurningu hversu mikinn fjölda ferðamanna Ísland þolir. Hins vegar sé ánægjulegt hversu vel hafi tekist að fjölga ferðamönnum utan háannatímans á sumrin.

Vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi á undanförnum áratug hefur verið mjög hraður og ferðamönnum fjölgað um 16 til 19 prósent á ári. Í samantekt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að kortavelta útlendinga á Íslandi var 1,7 milljarði króna meiri í maí síðast liðnum en á sama tíma í fyrra og var 8,7 milljarðar króna. Þetta er nánast tvöföldun á kortaveltu útlendinga í maímánuði á fimm árum.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þetta enn eitt dæmið um vöxt ferðaþjónustunnar á undanförnum árum

„Já, þetta er auðvitað alveg frábært hvað jaðartími ársins í ferðaþjónustunni hefur eflst,“ segir Grímur.

En þessum öra vexti fylgja líka vaxtaverkir og sumir hafa áhyggjur af því að ferðamenn upplifi ekki það sem þeir eru að sækjast eftir þegar nánast er örtröð á hálendinu og öðrum helstu ferðamannastöðum.

„Þetta er eitt okkar stærsta verkefni nú um stundir að huga að þessum atriðum. Fólk vill kannski upplifa víðáttu, kyrrð og fámenni. En það eru bara fleiri og fleiri sem vilja njóta þess. Þetta er auðvitað mjög aðkallandi verkefni hjá ferðaþjónustunni og stjórnvöldum að móta stefnu í þessum efnum,“ segir Grímur.

Spár gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna fari í eina milljón á þessu ári eða næsta og með fjölgun flugfélaga og áfangastaða sem þjóna Íslandi sér ekki fyrir endann á fjölguninni.



Hva
ð þolir landiðaðtakaámóti mörgum ferðamönnum?



„Þetta er grundvallarspurning og orðið brýnt að stjórnvöld og ferðaþjónustan í sameiningu svari henni og þjóðin öll. Við þurfum að velta fyrir okkur þessum grundvallar spurningum,  hvað við teljum að sé okkar markmið varðandi fjölda ferðamanna. Ég veit ekki til þess að slíkt markmið sé til í dag,“ segir Grímur.

Tekjur ríkissjóðs á hvern ferðamann hafa dregist saman á undanförnum árum. Ríkisstjórnin ákvað að hverfa frá hækkun fyrri ríkisstjórnar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna úr 7 prósentum í 14 prósent og enn bólar ekkert á náttúrupassa sem iðnaðarráðherra hefur boðað.

„Við erum búin að vera að vinna með stjórnvöldum að varanlegri lausn í sambandi við gjaldtöku af ferðamannastöðum til varðveislu þeirra og uppbyggingar og ég er að vonanst til að við sjáum með haustinu sameiginlegar tillögur stjórnvalda og ferðaþjónustunnar í þeim efnum,“ segir Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×